„Verkefnið hefur þjappað hópnum saman": Lego-hópurinn starfrækir kaffihús í Grunnskóla Reyðarfjarðar á sunnudaginn

Legohopur webSigurlið Grunnskóla Reyðarfjarðar í tækni- og hönnunarkeppni grunnskólanemenda verður með opið kaffihús í skólanum á sunnudaginn til þess að safna fyrir ferð sinni á heimsmeistaramótið í Bandaríkjunum í apríl.

Liðið Einn + níu úr Grunnskóla Reyðarfjarðar sigraði í tækni- og hönnunarkeppni grunnskólanemenda, FIRST LEGO League (FLL), sem fram fór í Háskólabíói í vetur. Liðið tryggði sér um leið þátttökurétt á heimsmeistaramóti FIRST LEGO League í St. Louis í Bandaríkjunum í vor.

Guðrún Linda Hilmarsdóttir er kennarinn hópsins í þeirri valgrein sem Lego-verkefnið er. Hún segir undirbúning á lokasprettinum, en hópurinn heldur utan 20. apríl. Keppnin skiptist í þrennt – kynningu á rannsóknarverkefni, kynningu á forritun og hönnun vélmennis og svo vélmennakappleik.

„Þetta hefur gengið mjög vel, en að sama skapi er verkefnið mjög stórt og krefjandi. Aðal vinnan síðustu vikur hefur farið í að snúa öllu efninu yfir á ensku. Það er mikil vinna. Þau kynna rannsóknarverkefni sitt, en þemað í ár er „skóli framtíðarinnar" og krakkarnir völdu að leita sér upplýsinga um hvernig standa eigi að því að koma táknmálskennslu inn í hefðbundið skólastarf. Einnig gera þau grein fyrir forritun og hönnum vélmennissins og kynna skólann sinn og landi á sérstökum bás, þannig að þetta hefur verið heilmikil þýðingarvinna, "segir Guðrún Linda.

Stelpurnar svolítið frekar

Eins og nafn hópsins skýrskotar í samanstendur hann af einum strák og níu stelpum. „Samstarfið gengur vel og verkefnið hefur þjappað hópnum vel saman. Leifur segir reyndar að stelpurnar séu svolítið frekar," segir Guðrún Linda.

Þeir sem vilja gera sér glaðan dag og styrkja Lego-hópinn í leiðinni ættu að gera sér ferð í Grunnskóla Reyðarfjarðar milli klukkan 14 og 17 á sunnudaginn.

Hópurinn verður með kynningu á vélmenninu og þeim þrautum sem það á að leysa í keppninni auk þess sem þau renna reglulega yfir fyrirlestrana.

Einn + níu ásamt Guðrúnu Lindu Hilmarsdóttur. Ljósm. Kristborg Bóel

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.