Sky staðfestir aðra þáttaröð af Fortitude: Ekki ákveðið hvar hún verður tekin upp

rfj fortitude 0016 webSky sjónvarpsstöðin hefur staðfest að til standi að gera aðra þáttaröð af Fortitude-þáttunum sem teknir voru upp á Austfjörðum fyrir rúmu ári. Ekkert hefur samt enn verið tilkynnt um tökustað eða leikara.

„Það er líklegt að þættirnir verði teknir upp á sama stað en það er ekki staðfest," sagði Luke Morrison, talsmaður Sky í samtali við Austurfrétt í morgun.

„Það er enn verið að skrifa handritið og við staðfestum hvorki leikara né tökustað fyrr en því er lokið."

Samið hefur verið um gerð 10 þátta og verður Simon Donald áfram aðalhandritshöfundur. Honum fylgja framleiðendurnir Patrick Spence og Frith Tiplady sem einnig voru yfir fyrstu þáttaröðinni.

Í tilkynningu Sky kemur fam að þættirnir hafi notið mikilla vinsælda og að meðal tali hafi 1,7 milljón manna horft á hvern þátt í Bretlandi, þar af horfðu 2,7 milljónir á fyrsta þáttinn. Það gerir þá að vinsælasta leikna efni sem Sky hefur framleitt. Áætlað er að um helmingur áhorfenda hafi í fyrsta sinn stillt á stöðina til að fylgjast með Fortitude.

Sky rekur einnig stöðvar í Þýskalandi, Austurríki og á Ítalíu þar sem þættirnir voru sendir út auk sjónvarpsstöðvarinnar Pivot í Bandaríkjunum. Þess utan voru þættirnir seldir til yfir 100 stöðva um allan heim í gegnum dreifingafyrirtækið Sky Vision.

„Það eru forréttindi að fá að koma aftur til Fortitude. Veruleikinn og óttinn búa þar hlið við hlið og myrk leyndarmál gægjast fram í kalda dagsbirtuna. Ég hef aldrei kynnst stað eins og Fortitude og get ekki beðið eftir að snúa aftur þangað," segir handritshöfundurinn Simon Donald.

„Simon Donald hefur spunnið sérstæðan og ógnvekjandi söguþráð sem viku eftir viku hefur haldið í viðskiptavini okkar. Ég er hæstánægður með að snúa aftur til Fortitude á næsta ári með sögu sem er líkleg til að heltaka og hrella okkur á ný," segir Zai Bennett, framkvæmdastjóri Sky Atlantic.

Þættirnir í fyrstu seríunni eru tólf en sá síðasti verður sendur út í Bretlandi og Bandaríkjunum í kvöld. Hérlendis sýnir RÚV níunda þáttinn í kvöld. Ljóst er að breytingar verða á leikaraliðinu því nokkrir aðalleikaranna hafa þegar týnt tölunni.

„Leikararnir eru í miklu uppáhaldi hjá okkur, sérstaklega þeir sem lifðu af," er haft eftir Anna Mensah, forstöðumanns leikinnar þáttagerðar hjá Sky í The Guardian.

Mikið var lagt í fyrstu þáttaröðina sem er hin dýrasta sem Sky hefur framleitt en áætlað er að hún hafi kostað 25 milljónir punda eða um fimm milljarða króna.

„Með því að skapa virkilega vandaðar þáttaraðir sem þykja frumlegar og skera sig þannig úr á markaðinum er hægt að fá fjárfestinguna til baka."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.