Kaffi Blue er happastaðurinn; Fljótsdalshérað keppir í undanúrslitum Útsvars í kvöld
Lið Fljótsdalshéraðs mætir Skagfirðingum í kvöld í undanúrslitum spurningakeppninnar Útsvars. Mikið menningarlíf er í fjórðungnum um helgina.Sem fyrr er lið Fljótsdalshéraðs skipað þeim Eyjólfi Þorkelsyni, Þorsteini Bergssyni og Björgu Björnsdóttur.
Þorsteinn sagðist spenntur fyrir að mæta Skagfirðingunum, en þau séu afar skemmtilegir andstæðingar. Liðið hittist á miðvikudaginn til þess að stilla saman strengi sína. „Við fórum yfir leikinn, það er lítið annað hægt að undirbúa. Annars er Eyjólfur orðinn svo góður leikari að við þurfum ekki að hafa nokkrar áhyggjur," segir Þorsteinn.
Aspurður hvort liðið eigi sér einhverja sérstaka rútínu fyrir keppni sagði Þórsteinn; „Já, það má segja það. Við hittumst alltaf á Kaffi Blue í Kringlunni og fáum okkur eitthvað gott áður en við förum að keppa," þannig að óhætt er að kalla Kaffi Blue happastað Fljótsdalshéraðs. „Það er ágætt að hafa ákveðnar seremoníur, það hjálpar upp á móralinn, sem annars er afar góður innan okkar raða."
Líkt og í síðustu viku verður hægt að horfa á keppnina í Valaskjálf, en í kjölfarið heldur karlakórinn Drífandi vortónleika sína í húsinu.
Menningarlíf helgarinnar
Nóg annað er um að vera í menningarlífinu eystra um helgina.
Á morgun laugardag, klukkan 16:00, opnar sýningin Raunverulegt líf í sýningarsal Skaftfells á Seyðisfirði. Sýningin fjallar um líf raunverulegs fólks, þó um nokkuð óvenjulegt fólk sé að ræða. Listamennirnir eru þau Hreinn Friðfinnsson (IS), Ragnheiður Gestsdóttir & Markús Þór Andrésson (IS), Cecilia Nygren (SWE), Lucia Simek (USA), Arild Tveito (NO). Sýningarstjóri er Gavin Morrison, nýskipaður listrænn heiðursstjórnandi miðstöðvarinnar.
Á laugardagskvöld klukkan 21:00 eru djasstónleikar í Norðfjarðarkirkju með hinu frábæra Richard Anderson trio. Richard er danskur bassaleikari sem flutti til Íslands síðastliðið haust. Hann hefur nú stofnað tríó með tveimur af fremstu djassleikurum landsins, þeim Óskari Guðjónssyni, saxófónleikara og Matthíasi Hemstock, trommuleikara.
Síðasta sýningarhelgi af Leirlist og Loðfeldum er á Skriðuklaustri um helgina. Um tvær sýningar er að ræða, annars vegar sýningu frá Handverki og hönnun þar sem átta leirlistarkonur sýna verk sérstaklega unnin fyrir þessa sýningu.
Hins vegar sýnir Í gallerí Klaustri sýnir Elísabet Karlsdóttir fatahönnuður verkefni sitt STAND UP/ STAND OUT í Gallerí Klaustri. Meginefniviður línunar er íslenska selskinnið sem er notað i bland við ull, silki, hreindýraleður, rauðref og bísam.
Kór Menntaskólans við Hamrahlíð heldur tónleika í Djúpavogskirkju sunnudagskvöldið og hefjast þeir klukkan 20:00.