„Unglingar eru ótrúlegt fólk": Uppskeruhátíð Þjóðleiks er í Sláturhúsinu um helgina

thjodleikur webUppskeruhátíð Þjóðleiks á Austurlandi verður haldin í Sláturhúsinu á Egilsstöðum um helgina, en þar munu ungmenni úr fjórðungnum koma saman og sýna afrakstur vinnu sinnar.

Þjóðleikur er leiklistarverkefni sem haldið er að frumkvæði Þjóðleikhússins, en þar gefst elstu nemendum grunnskóla á landsbyggðinni kostur á að velja milli leikverka sem sérstaklega eru skrifuð fyrir verkefnið. Áætlað er að um 400 ungmenni á landsbyggðinni koma að verkefninu í ár.

Leikskáldin að þessu sinni eru þau Bergur Ebbi Benediktsson og Björk Jakobsdóttir. Verk Bergs Ebba heitir Hlauptu, týnstu og Bjarkar verk ber titilinn Útskriftarferðin. Leikhóparnir hafa valið sér annað þessara verka til uppsetningar og hafa æft stíft frá áramótum.

Lokahátíðin fer fram í Sláturhúsinu föstudaginn 17. og laugardaginn 18. apríl, en þá koma allir leikhópar fjórðungsins saman og sýna afrakstur vinnu sinnar. Borgafjörður eystri , Seyðisfjörður, Eskifjörður, Reyðarfjörður og Neskaupsstaður eiga allir leikhópa í Þjóðleik í ár og frá Egilsstöðum koma þrír hópar. Einnig koma hópar frá Norðurlandi vestra austur og taka þátt í lokahátíðinni.

Hóparnir koma alltaf á óvart

Leikhópurinn Mixtúra frá Grunnskóla Reyðarfjarðar frumsýndi verkið Hlauptu, týnstu, fyrir fullu húsi í Félagslundi á Reyðarfirði í gær.

Unnur Sveinsdóttir leikstýrir hópnum og hefur verið í því hlutverki undanfarin ár. Hún segir Þjóðleiksverkefnið afar þýðingarmikið og segir að áhugi á leiklist hafi vaxið í tengslun við það.

„Áhuginn er mjög mikill og hefur blossað upp í kjölfar Þjóðleiks. Leiklist skiptir afar gríðarlega miklu máli fyrir unglinga, en þar geta þeir prófað allan fjandann – mátað sig í allskonar hlutverk og reynt hluti án þess að gera þá í alvörunni."

Unnur var að vonum bæði ánægð og stolt með hópinn sinn eftir sýninguna og aðspurð hvort krakkarnir hafi komið á óvart sagði hún; „Hóparnir koma alltaf hreint á óvart. Unglingar eru ótrúlegt fólk, algert æði. Ólíklegustu einstaklingar, jafnvel þeir sem þrífast ekki inn í bekkjum, fara að stjórna bak við tjöldin og gera allt og græja," segir Unnur.


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.