„Viljum vera hluti af nærþjónustu": Lyfja opnar nýja verslun í Neskaupstað
Lyfja hefur verið starfrækt í Neskaupstað frá árinu 2003, en hefur nú flutt starfsemi sína í endurbætt húsnæði að Hafnarbraut 15.
Elsa Ágústsdóttir, forstöðumaður verslunar- og markaðssviðs Lyfju, segir breytingarnar hafa gengið mjög vel og verslunina sérlega glæsilega. „Þetta er gífurlegur munur frá þeirri verslun sem var, við fengum nýtt rými sem er mun stærra og allt sett upp í því útliti sem nýju verslanirnar okkar eru," segir Elsa.
Elsa segir Lyfju vilja leggja áherslu á að veita viðskiptavinum sínum góða þjónustu um allt land, en fyrirtækið rekur 42 apótek og heilsuverslanir um land allt. „Við erum með flestu útibúin af apótekum á landsbyggðinni, en það er stefna fyrirtækisins og okkar sérstaða."
Lyfja veitir styrki til tveggja félaga á svæðinu í tilefni opnunarinnar. Annars vegar Félags eldri borgara á Norðfirði og hins vegar unglingastarf Björgunarsveita Gerpis, sem hvort um sig hljóta 150 þúsund krónur. „Við viljum vera hluti af nærþjónustunni og veitum alltaf styrki til valinna félagasamtaka þegar við opnum eða gerum endurbætur á verslun viðkomandi svæðis," segir Elsa.
Starfsmenn Lyfju, frá vinstri; Þorbjörg Gunnlaug Traustadóttir, Freyja Viðarsdóttir, Guðbjörg Jónsdóttir, María Katrín Long, Hugrún Ísaksdóttir. Ljósmyndir; Kristín Svanhvít Hávarðsdóttir.