Skip to main content

Eskfirskur verkefnastjóri á Akureyri; Helga Jósepsdóttir og kærasti hennar eru verkefnastjórar Grasrótar

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 28. apr 2015 14:38Uppfært 28. apr 2015 14:40

grasrot14Eskfirðingurinn Helga Jósepsdóttir og kærasti hennar, Ignacio García Leñero, eru verkefnastjórar Grasrótar á Akureyri.



Grasrót er skapandi samfélag með það að markmiði að vera vettvangur fyrir áhugasamt fólk sem vill fá tækifæri til að þróa hugmyndir sínar með litlum kostnaði.

Helga, sem sjálf er vöruhönnuður, segir miðstöðina vettvang í líflegu umhverfi, þar sem fólk getur komið saman og unnið að skapandi verkefnum á sviði iðnaðar, þjónustu og menningar.

„Við leggjum áherslu á endurnýtingu og gjörnýtingu – samnýtingu hráefna, verkfæra og verkþekkingu innanhúss, ásamt því að leitast eftir fremsta megni að nýta að fullu allan efnivið og skapa ekki úrgang," segir Helga.


Hár aðstöðukostnaður hefur verið þröskuldur á þróunarstarfi

Í Grasrót á fólk þess kost á að leigja ódýra aðstöðu sem er nægjanlega stór og góð til að þróa hugmyndir á byrjunarstigi.

„Um 60 vinnustofur eru í húsinu og um 70 manns hafa fasta vinnuaðstöðu hérna. Hár aðstöðukostnaður getur verið mikill þröskuldur á þróunarstarfi en hér er öllum kostnaði haldið í lágmarki. Stór þáttur hugmyndafræðinnar er að bjóða upp á aðstöðu fyrir skapandi samfélag þar sem allir eru jafnir og eiga möguleika á að nýta styrkleika hvers annars. Þetta er afar mikilvægt fyrir þá sem eru að þróa og byggja upp sína eigin framleiðslu. Reynslan, þekkingin og hugmyndirnar sem safnast saman á svona stað er ómetanlegur fjársjóður sem margfaldast þegar honum er deilt og verður sjálfkrafa mikilvægur stuðningur við frumkvöðla," segir Helga.


Grasrótarbúð

Ekki er einungis um vinnustofur að ræða – en auk þess að standa fyrir opnum húsum, mörkuðum, bíósýningum á heimildamyndum, fyrirlestrum og ýmsu fleiri tengdu skapandi störfum, opnaði Grasrótarbúðin fyrir stuttu í húsnæði miðstöðvarinnar að Hjalteyrargötu 20.

„Í Grasrótarbúiðnni erum við með til sölu vörur skapaðar af meðlimum Grasrótar og framleiddar að öllu eða sumu leyti hér í húsinu. Þetta eru vörur af ýmsu tagi frá um 30 einstaklingum, s.s. myndlist, eldsmíðaðir hnífar, partýplattar, skálar, leikföng, ljós og kertastjakar, glerlist, trémunir, uppgerð húsgögn og margt fleira.

Við stefnum að því að miðstöðin í heild sinni verði til þess að auka fjölbreytnina í afþreyingar- og verslunarflóru bæjarins og verði miðpunktur hönnunar- og framleiðslu úr héraði og þannig mikilvægur hluti af upplifun ferðamanna sem til bæjarins koma," segir Helga.

grasrot1grasrot2grasrot3grasrot4grasrot5grasrot7grasrot8grasrot9grasrot10grasrot11grasrot12grasrot13grasrot14