Mikill skortur á leiðsögumönnum í fjórðungnum: Átján luku námi í svæðisleiðsögn hjá Austurbrú
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 30. apr 2015 13:33 • Uppfært 30. apr 2015 13:34
Átján einstaklingar luku nýverið námi í svæðisleiðsögn hjá Austurbrú og vonir eru bundnar við að flestir þeirra skili sér í leiðsagnarverkefni.
Hulda Guðnadóttir er verkefnastjóri hjá Austurbrú og umsjónarmaður námskeiðsins.
„Við héldum þetta námskeið af því að þörfin eftir leiðsögumönnum er veruleg og við vorum hreinlega ekki undirbúin fyrir þá miklu aukningu ferðamanna sem hefur orðið," segir Hulda, en fjöldi farþega sem koma með skemmtiferðaskipum jókst um 50% milli áranna 2011 og 2014 og umsvifin verða enn meiri í sumar.
Hulda segir að einkum hafi verið horft til farþega skemmtiferðaskipa á námskeiðinu og farið yfir grunnþætti í menningu, náttúrufari- og sögu Austurlands, leiðsögutækni, svæðislýsingar á Austurlandi, skyndihjálp og þjónustu við ferðamenn. Námið var að mestu kennt í fjarnámi og segir hún að það hafi aukið aðsóknina töluvert.
„Við lögðum ríka áherslu á að byggja námið þannig upp að fólk yrði öruggt í því sem það væri að gera að því loknu, sem og að það myndi nýta sér námið og skila sér út á vinnumarkaðinn."
Hulda segir að stefnt sé að því að halda annað og jafnvel stærra námskeið í svæðisleiðsögn síðar, en bæði þörfin og eftirspurnin sé mikil. „Það vantar sérstaklega þýskumælandi leiðsögumenn, auk þess sem það er mikill almennur skortur á svæðisleiðsögumönnum í fjórðungnum, sem er reyndar algert lúxusvandamál," segir Hulda.