Ljóðasafn, fyrsta bók austfirsks forlags og fyrirlestur um eldgosið
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 01. maí 2015 22:47 • Uppfært 01. maí 2015 22:48
Útgáfu Ljóðasafns Ingunnar Snædal verður fagnað í Fellabæ á sunnudag, fyrsta bók forlagsins Bókstafur er komin úr prentun og í Breiðdalssetri verður fyrirlestur um eldgosið í Holuhrauni.
Safn Ingunnar inniheldur heildarsafn ljóða hennar á árunum 1995-2015 ásamt áður óbirtum ljóðum. Ingunn hefur sent frá sér fimm ljóðabækur, sem hafa vakið athygli og aflað henni vinsælda. Hún er margverðlaunuð fyrir ljóð sín.
Hófið verður í Bókakaffi á sunnudag klukkan 16:00.
„Rachel fer í frí" er komin út. Bókin er önnur bók metsöluhöfundarins Marian Keyes en sú fyrsta sem kemur út á íslensku og er þýdd af Sigurlaugu Gunnarsdóttur.
Þótt bókin sé vissulega sumarleyfabók þá er efni hennar af alvarlegra taginu. Marian Keyes er sérfræðingur í að fjalla um alvarleg málefni af miklu innsæi og kímnigáfu í senn.
Í bókinni „Rachel fer í frí" eru það fíknisjúkdómar sem hún tekur til meðferðar og byggir þar að hluta til á eigin reynslu. Bókin fer í dreifingu um og eftir helgi og verður til sölu allsstaðar sem því verður við komið.
Og í Breiðdalssetri klukkan 16:00 á laugardag mun Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands fjalla um Nornahraun og eldgosið norðan Vatnajökuls.