Áfram Austurland: Upplýsingamiðstöð Austurlands og Egilsstaðastofa

birgitta og heidur upplysingamidstodvar webÞað vakti hörð viðbrögð þegar Upplýsingamiðstöð Austurlands var lokað í nóvember síðastliðnum, en þörf fyrir markvissa upplýsingagjöf eykst sífellt með vaxandi ferðamannastraumi og veðurfarslegum aðstæðum á landinu hverju sinni. Ferðamálastofa var harðlega gagnrýnd fyrir knappt framlag frá ríki til að sinna þessari þjónustu.

Niðurstaða þeirra aðila sem komið hafa að rekstrinum undanfarin ár, það er Austurbrú fyrir hönd Ferðamálastofu og Fljótsdalshérað, leiddi til þess að Fljótsdalshérað ákvað að verja fjármunum sínum til stofnunar Egilsstaðastofu (Visitor center), í tengslum við tjaldsvæðismiðstöðina.

Austurbrú var samkvæmt reglum Ferðamálastofu, skylt að semja við hlutlausan aðila og ákvað starfshópur sem skipaður var um málið að ganga til samninga við Hús handanna um rekstur Upplýsingamiðstöðvar Austurlands, landshlutamiðstöðvar til eins árs.
Birgitta Ósk Helgadóttir, verslunarstjóra hjá Húsi handanna og Heiður Vigfúsdóttir, framkvæmdastjóra hjá Austurför (Travel East) sátu fyrir svörum Austurfréttar varðandi rekstur tveggja upplýsingamiðstöðva á Egilsstöðum.

Ná til breiðari hóps

„Við finnum að þetta ruglar fólk í ríminu og þurfum að upplýsa hvernig þessar tvær stöðvar geta hámarkað góða upplýsingagjöf á svæðinu," segir Birgitta Ósk.

Hún segir að gagnrýna megi í hvaða farveg málin lentu, en nú skipti máli að einblína á góða upplýsingagjöf og samvinnu þessara tveggja aðila.

„Ef við horfum á kostina, þá er góð staðsetning landshlutamiðstöðvar og langur opnunartími tjaldstæðismiðstöðvar tvímælalaust jákvætt fyrir þjónustustigið. Markmiðið er fyrst og fremst að veita öfluga upplýsingagjöf og ná til sem flestra ferðamanna til að „selja" þeim að dvelja lengur á Austurlandi en auðvitað náum við líklega til breiðari hóps sem fær ýtarlegri upplýsingagjöf en ella," segir Birgitta Ósk.

Einskonar „anddyri Austurlands"

Hús handanna og Upplýsingamiðstöð Austurlands er staðsett í hjarta Egilsstaða, við fjölförnustu gatnamót Austurlands.
„Samningurinn við Ferðamálastofu kveður á um að annast almennt upplýsingastarf á sviði ferðamála og veita hlutlausa upplýsingagjöf um þjónustu á Austurlandi, ásamt því að svara fyrirspurnum um landið í heild. Til samans geta Upplýsingamiðstöð Austurlands og Hús handanna orðið eins konar „anddyri Austurlands" en markmiðið er að skapa áhugaverðan áningarstað og lifandi torg þar sem ferðamenn geta kynnt sér allt það besta sem Austurland hefur upp á að bjóða í þjónustu, náttúruupplifun og vörum úr héraði," segir Birgitta Ósk.

Egilsstaðastofa leggur áherslu á Fljótsdalshérað

Heiður segir Egilsstaðastofu leggja áherslu á upplýsingar um Fljótsdalshérað en sveitarfélagið hefur í mörg ár verið eina sveitarfélagið sem hefur stutt rekstur Upplýsingamiðstöðvar Austurlands, um 3.8 milljónir árlega.

„Í ársbyrjun 2015 var ákveðið að þetta fjármagn færi í opnun Egilsstaðastofu, í tengslum við tjaldstæðismiðstöðina. Egilsstaðastofa sinnir einnig innri markaðsmálum Héraðsins í tengslum við þjónustusamfélagið á Héraði, en opnunartíminn yfir sumarmánuðina er frá sjö á morgnana til ellefu á kvöldin," segir Heiður.

„Austurför er með bókunaraðstöðu sína í Egilsstaðastofu en við leggjum megináherslu á ferðir og afþreyingu um allt Austurland. Einnig almenningssalerni, stoppistöð og bílastæði fyrir rútur, en það léttir mikið á þungaumferð um miðbæ Egilsstaða," segir Heiður.

Leggja áherslu á góða samvinnu

Þær stöllur benda á að Hús handanna og Travel East séu bæði sprotafyrirtæki sem séu að kynna og markaðssetja vöru og þjónustu úr héraði og bjóði fjölmörgum aðilum þjónustu sína. Bæði fyrirtækin fá tækifæri til að vinna þessi verkefni fyrir ríki og sveitarfélag og samlegð í rekstri sé hagstæð fyrir báða aðila og ferðamenn. Þetta auki líkurnar á að fyrirtækin nái að skapa fleiri atvinnutækifæri í ferðaþjónustu, hönnun og listiðnaði til framtíðar.

„Við leggjum áherslu á góða samvinnu milli þessara tveggja miðstöðva; Upplýsingamiðstöðvar Austurlands og Egilsstaðastofu sem og annarra upplýsingamiðstöðva í fjórðungnum. Með það að markmiði má vænta þess að mjög öflug upplýsingagjöf verði á svæðinu, Austurlandi öllu til heilla," segir Heiður.

Birgitta Ósk Helgadóttir, verslunarstjóri hjá Húsi handanna og Heiður Vigfúsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Austurför. Ljósm: GG


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.