Opnunarhátíð á Seyðisfirði og Vopnafirði í dag: List án landamæra enn í fullum gangi
Listahátíðin List án landamæra er enn í fullum gangi á Austurlandi. Mikið var um að vera á Egilsstöðum og Djúpavogi síðastliðna helgi, en hátíðin var sett á þeim stöðum á laugardaginn. Opnunarhátíð verður á Seyðisfirði og Vopnafirði í dag, í Fjarðabyggð á morgun og á Borgarfirði eystra á laugardaginn kemur.Vegleg opnunarhátíð var í Valaskjálf á Egilsstöðum þar sem flutt voru fjölbreytt tónlistaratriði og fleira. Í kvöld verður Bergvin Oddsson með uppistand í Sláturhúsinu og hefst það klukkan 20:00.
Sýningarstaðir á Fljótsdalshéraði: Bókakaffi Hlöðum Fellabæ, Gistihúsið Egilsstöðum, Kaffiterían Egilsstaðaflugvelli, Salt - Café & Bistro, Icelandair Hótel Hérað, Hús Handanna, Hlymsdalir, Bókasafn Héraðsbúa, Skriðuklaustur, Sláturhúsið menningarmiðstöð, Tjarnargarðurinn.
Opnunarhátíð var í Hótel Framtíð á Djúpavogi þar sem flutt voru ýmis tónlistar- og leikatriði og sýndar sérhannaðar vörur úr hreindýraafurðum.
Seyðisfjörður – miðvikudagur 14. maí
Opnunarhátíð verður í bókabúðinni á Seyðisfirði í dag (verkefnarými) og hefst hún klukkan 16:00.
Sýning verður á verkum nemenda Seyðisfjarðarskóla undir handleiðslu Þorkels Helgasonar smíðakennara og Hönnu Christel Sigurkarlsdóttur fræðslufulltrúa í Skaftfelli.
Sýning verður á ljósmyndum eftir Aron Fannar Skarphéðinsson á vesturvegg Skaftfell Bistró, miðstöð myndlistar á Austurlandi.
Vopnafjörður – miðvikudagur 14. maí
Opnunarhátíð verður í Grunnskóla Vopnafjarðar milli klukkan 14:00-17:00.
Þar verður sýning á verkum sem byggjast á samstarfi nemenda úr leikskólanum Brekkubæ, nemendum úr Grunnskólanum Vopnafirði. Tónlistarskóli Vopnafjarðar sér um tónlistaratriði.
Fjarðabyggð – fimmtudagur 14. maí
Opnunarhátíð verður í Kirkju - og menningarmiðstöðin á Eskifirði milli klukkan 14:00 og 17:00.
Þar verður samsýning á verkum leik- og grunnskóla í Fjarðabyggð út frá þemanu Hreindýr. Tónlistaratriði verða frá nemendum úr Tónlistarskóla Eskifjarðar og Reyðarfjarðar.
Bergvin Oddsson uppistandari mætir á svæðið og skemmtir fólki auk þess sem kaffisala verður á staðnum.
Borgarfjörður eystri – laugardagur 17. maí
Opnunarhátíð verður í grunnskólanum á Borgarfirði klukkan 13:00 þar sem myndverk eftir nemendur grunnskólans af hreindýrum verða til sýnis.