Fjölmennt Lionsþing á Seyðisfirði: Hvað er að gerast í fjórðungnum um helgina?
Undirbúningur þingsins hefur staðið í á annað ár og áætlað er að um 300 manns muni sækja það.
Örvar Jóhannsson, formaður Lionsklúbbs Seyðisfjarðar, segir að þing sem þetta sé ekki hrist fram úr erminni og væri nær ógerlegt fyrir litla klúbba að halda það, ef ekki væri fyrir fjölda fólks og fyrirtækja sem hafa lagt lið við undirbúning þess.
„Mig langar hér að þakka þeim einstaklingum og fyrirtækjum fyrir aðstoðina, sérstaklega vil ég þó þakka Seyðisfjarðarkaupstað og forstöðumönnum þeirra stofnana bæjarins sem við fáum afnot af við hina ýmsu viðburði þingsins. Að lokum vil ég bjóða alla þingfulltrúa og maka þeirra velkomna og vona að við eigum góða Lionshelgi saman."
Vésteinn Ólason, prófessor, mun spjalla um Aðventu – skáldsögu Gunnars Gunnarssonar á sunnudaginn, í skrifstofu skáldsins á Skriðuklaustri. Aðventa er sú skáldsaga Gunnars sem víðast hefur farið og verið þýdd á flest tungumál en á næsta ári verða liðin 80 ár frá því hún kom fyrst út. Erindi Vésteins er haldið í tilefni þess að mánudaginn 18. maí verða liðin 126 ár frá fæðingu Gunnars Gunnarssonar. Erindið hefst kl. 16.00 og er aðgangur ókeypis.
Vegna fjölda fyrirspurna var ákveðið að framlengja sýningu nemenda í 1.-7.bekk Seyðisfjarðarskóla yfir helgina. Sýningin var hluti Listar án landamæra og ber heitið Konungur norðursins og er í Bókabúðinni-verkefnarými.
Mikið verðurm að vera í Valaskjálf í dag, en evrópska kvikmyndhátíðin „Allan hringinn" hefur hringferð sína um landið á Egilsstöðum í dag.
Það eru Evrópustofa og Bíó Paradís sem efna til hátíðarinnar í samstarfi við Films on the Fringe og bjóða brot af því besta í evrópskri kvikmyndagerð.
Dagskráin er þessi:
16:00 Antboy: Rauða Refsinornin - Talsett á íslensku
18:00 Hross í oss
20:00 Frank
Frítt er inn á allar sýningar.
Frá fundi Lionsklúbbsins Múla. Ljósm: GG