„Væri alveg til í eyða smá tíma með Einstein": Eva Hrund Kjerúlf er í yfirheyrslu vikunnar
Eva Hrund Sigurðardóttir Kjerúlf komst aldeilis í fréttir vikunnar eftir að Austurfrétt greindi frá því hvernig hún lagði fyrir tíu krónur á dag og sparaði þannig fyrir hrærivél. Eftir það höfðu fleiri fjölmiðlar samband við Evu og sögðu frá þessu skemmtilega uppátæki.Eva Hrund er býr á Egilsstöðum ásamt dætrum sínum tveimur. Hún hefur lokið námi í Hússtjórnarskólanum, útskrifaðist sem klæðskeri árið 1999 og er þessa dagana að klára meistaranám.
Eva Hrund er í hrútsmerkinu og segir það skýra elju sína og þrjósku. Aðspurð um hvort henni hafi komið þessi miklu viðbrögð og athygli sem fréttinni fylgdi á óvart segist hún svo vera, að hún hafi aðeins búist við einhverjum viðbrögðum frá vinum og ættingjum.
Hvernig er krukkan sem geymir góssið? „Það er stórt glært glas sem breytist svo yfir í Mackintosh dall þegar lengra líður á. Næst á dagskrá er að safna fyrir fylgihlutum á hrærivélina. Það mun taka um sex ár með því að leggja fyrir 20 krónur á dag, það liggur ekkert á. Eftir það verður það svo sófi."
Hefur Eva Hrund heyrt að fólk ætli almennt að taka hana sér til fyrirmyndar í sparnaðaraðgerðum? „Ég vona svo sannarlega að fleiri tileinki sér og fari eftir þessu hugtaki. Það minnast ansi margir á að ég sé góð fyrirmynd og þar eru dætur mínar alveg sammála um, sú yngri ætlar sko að gera svona eins og mamma sín – hún notar hrærivélina jafn mikið og ég. Tveimur dögum eftir birtingu fréttarinnar fékk ég sent kort með yndislegum orðum og 10 tíkalla uppí sófann."
Fullt nafn: Eva Hrund Sigurðardóttir Kjerúlf
Aldur: 40 ára
Starf: Móðir, klæðskeri og námsmaður
Maki: Einstök
Börn: Fanney Marín Hugadóttir (15), Líney Petra Hugadóttir (13)
Hvernig er týpískur dagur hjá þér? Vakna með stelpunum í hafragrautsgerð og í sameiningu ákveðum við kvöldmatinn. Nokkrir góðir kaffibollar og lestur í námsbókum. Baka áður en stelpurnar koma og svo reynum við að hafa kósý hjá okkur um kvöldið.
Nefndu þrennt sem þú átt alltaf í ísskápnum? Mjólk, egg og tómatsósa.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn? Fljótsvarað – pizzurnar sem Skúli og Anna vinir mínir gera oft á föstudögum.
Draumastaður í heiminum? Það gæti verið gaman að fara til Hawaii.
Hvaða töfralausn trúir þú á? Ég hef ekki trú á töfralausnum, góðir og réttir hlutir gerast hægt.
Ef þú ætlar að tríta þig vel, hvað gerir þú? Finn mér góða, helst sannsögulega mynd að horfa á, ásamt stórri skál af poppi og sykurlaus djús. Er óskaplega nægjusöm.
Hvaða árstíð heldur þú mest upp á og af hverju? Gott íslenskt sumar, þá er hægt að gera svo margt úti, mála húsið, gera við bílinn og sleikja sólina.
Hvernig líta kosífötin þín út? Góðar náttbuxur og víður bolur og vera á tásunum.
Hvað bræðir þig? Nýfædd börn og tásurnar þeirra.
Hver er uppáhalds skyndibitinn þinn? Ég elda svo oft að það er kannski helst Subway með hellings grænmeti.
Hver er uppáhalds dagurinn þinn í vikunni og af hverju? Ég hef alltaf haldið uppá föstudaga. Þá er vikan á enda og engin þörf á vekjaraklukku tvo daga á eftir.
Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Ég væri alveg til í eyða smá tíma með Einstein.
Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Hreinskilni og greiðasemi við náungann, kostar oftast ekkert en gefur mikið.
Hvað er leiðinlegasta húsverkið þitt og af hverju? Það er klárlega að þrífa potta, en hefur skánað eftir að ég fékk mér teflon.
Hvað ætlar þú að gera um helgina? Helgarnar eru yfirleitt óskrifað blað, og bara gaman ef eitthvað skemmtilegt kemur uppá.