Skip to main content

Mikill er máttur vatnsins: Fyrsta samflotið á Austurlandi

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 15. maí 2015 14:20Uppfært 15. maí 2015 14:21

samflotFyrsta „samflotið" á Austurlandi fór fram í Sundlaug Norðfjarðar á sunnudaginn, en slökunaraðferðin var kynnt í tengslum við styrktargöngu Göngum saman.



Samflot byggir á sérstökum búnaði, gerðum fyrir djúpslökun í vatni, sem samanstendur af flothettu og fótfloti.

Notkun á slíkum búnaði, þar sem fleiri koma saman og láta sig fljóta á vatni, hefur breiðst hratt út sem einföld aðferð að aukinni líkamlegri- og andlegri vellíðan. Í kynningu framleiðanda segir m.a. að slökunarmáttur og endurnærandi máttur vatnsins sé vel þekkt staðreynd og streituvaldandi efni víki fyrir vellíðunarhormónum. Við notkun flotbúnaðarins nái ekkert utanaðkomandi áreiti að trufla þann sem flýtur.

Fyrsta samflotið á Austurlandi var skipulagt í tengslum við styrktargönguna Göngum saman í Neskaupstað. Búnaður fyrir fimm var fenginn að láni frá framleiðanda, en milligöngu hafði Hildur Ýr Gísladóttir, námsráðgjafi og einn af skipuleggjendum göngunnar í Neskaupstað.


Draumurinn að til verði búnaður fyrir austan

„Ég heyrði af Samfloti frá vinkonu minni fyrir sunnan og ákvað að hafa samband við Unni Valdísi Kristjánsdóttur, sem á heiðurinn af þessari hönnun. Þegar ég komst að því að ekki væri á áætlun að koma og kynna þetta hér fyrir austan datt mér í hug að fá lánaðar hettur og kynna búnaðinn eftir gönguna.

Viðtökurnar við kynningunni voru mjög góðar og margir prófuðu búnaðinn í lauginni við almenna ánægju. Nú er bara spurning um næsta skref – hvort við munum standa fyrir samfloti hér fyrir austan eða ekki.

Það væri einstaklega ánægjulegt ef framhaldið yrði á þá leið að til væri búnaður sem hægt væri að flytja á milli staða og standa að samfloti hér fyrir austan. Ég verð með búnaðinn hjá mér út maí og hugmyndin er að nýta þann tíma til þess að kynnast þessu betur," segir Hildur Ýr.