Skip to main content

Rachel komin á metsölulista: Fleiri verkefni í bígerð hjá Bókstaf

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 15. maí 2015 15:47Uppfært 18. maí 2015 10:00

bokstafur utgafuhof 0010 webSkáldsagan „Rachel fer í frí" sem er fyrsta bókin sem austfirska bókaforlagið Bókstafur gefur frá sér er á nýjasta metsölulista Eymundsson. Aðrar væntanlegar útgáfur voru kynntar í útgáfuhófi forlagsins á miðvikudagskvöld.


„Við réðumst í það fáránlega verkefni að þýða þessa bók og ég segi fáránlega því hún er 600 blaðsíður sem er ekki vænlegt fyrir þýðingar," sagði framkvæmdastjóri Bókstafs, Sigríður Lára Sigurjónsdóttir. 

Sigríður Lára segist hafa byrjað á að kanna hvernig hægt væri að kaupa útgáfuréttinn og svo allt í einu verið komin með hann en þá áttað sig á takmörkuðum tíma í þýðingar. „Það varð mér til happs að þýðandinn í næsta húsi missti vinnuna."

Bókin er mest selda bók írska metsöluhöfundarins Marian Keyes og hin fyrsta sem kemur út eftir hana hérlendis þrátt fyrir gríðarlegar vinsældir erlendis. Sigurlaug Gunnarsdóttir þýddi bókina.

Í nýjum metsölulista Eymundsson, sem birtur var í morgun, er bókin í fimmta sæti yfir mest seldu kiljurnar og í tíunda sæti heildarlistans.

Næst á dagskrá Bókstafs er opnun vefsins 101 Austurlands. Þar verða upplýsingar um gönguleiðir í fjórðungnum á ensku, þýsku og íslensku en vefnum verður fylgt eftir með bók sem væntanleg er næsta vor.

„Ég var búinn að hugsa lengi um að skrifa svona bók því hana vantar en ég hafði nóg að gera skynsemin greip alltaf í mig þar til Sigga Lára taldi í mig kjark," sagði Skúli Júlíusson, fjallagarpur sem skrifar bókina.

Þá hefur Ingunn Snædal nýlokið við að þýða bókina „Girls will be Girls" eftir Emer O'Toole, sem er meðal fastra dálkahöfunda breska stórblaðsins The Guardian.

Bókin hefur vakið heimsathygli enda ræðst Emer þar til atlögu við kynjaímyndir af fullum krafti. Hún fylgdi bókinni eftir með fjölda viðtala, meðal annars í sjónvarpi, þar sem hún vakti ekki síst athygli fyrir ákvörðun sína um að hætta að raka sig undir höndunum.

„Þegar þessi bók kemur út ætla ég að kaupa hana halda öllum yngri konum sem ég þekki og helst hinum líka því mér finnst hún æðisleg," sagði þýðandinn.

„Emer gerir tilraunir með kynkerfin sem við höldum að séu náttúrulögmál og gerum ekki nógu mikið til að brjóta upp.

Ég byrjaði að lesa bókina daginn sem Góugleðin var haldin í Brúarási og var hálfnuð þegar ég fór að hafa mig til. Ég var brjáluð eftir lesturinn um alla búningana sem við klæðumst og hugsaði „Nei, ég fer ekki í kjól, nei ég set ekki á mig varalit!" Þessi bók verður skyldulesning fyrir bæði karla og konur."

Þá er væntanleg barnabók frá Írisi Randversdóttur, fyrrum skólastjóra. „Ég á fimm barnabörn og tala um þau sem mýsnar mínar. Þetta eru svona væmnar ömmusögur sem ég hef verið að birta á Facebook."