Skip to main content

Hefur alltaf haft gaman af því að klippa og líma: Listakonan Dagrún Íris

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 18. maí 2015 09:19Uppfært 18. maí 2015 10:04

dagruniris web7Listakonan Dagrún Íris Sigmundsdóttir hefur frá unga aldri haft áhuga á klippimyndalist og stefnir að því að halda einkasýningu á verkum sínum á æskuslóðunum á Vopnafirði í sumar.


Dagrún Íris er grafískur hönnuður og skapar listaverk í klippimyndastíl, eða „collage". Hún er fædd og uppalin á Vopnafirði þar sem hún bjó til sextán ára aldurs þegar leiðin lá í Menntaskólann á Egilsstöðum.

„Ég hafði ekki mikinn áhuga á hefðbundnu bóknámi, en einhvern veginn var listnám ekki leið sem maður leit á sem möguleika á þeim tíma. Eitt viðtal hjá námsráðgjafa skilaði þó þeirri niðurstöðu að kannski myndi einhvers konar hönnunarnám henta mér betur, þó svo að leið mín hafi ekki legið í þá átt strax," segir Dagrún Íris.


Grafíska hönnunin kallaði

Dagrún Íris starfaði lengi í heildverslun þar sem hún vann kynningar- og markaðsefni en eftir það ákvað hún að skrá sig í nám í grafískri hönnun við Myndlistaskólann á Akureyri. Eftir að hafa byrjað í listfornámsdeild fann hún að áhuginn lá bæði á myndlist og grafík og þótti skemmtilegast að blanda því tvennu saman. Hún valdi því að fara í grafíska hönnun þaðan sem hún útskrifaðist vorið 2011. 

Mér er minnisstætt sem unglingur að hafa haft gaman af að klippa út og raða saman ólíkum myndum eða formum – sjá þær taka á sig nýja mynd eða ákveðna afbökun á sínu upphaflega útliti og skapa þannig nýjan raunveruleika. Þarna vissi ég ekki að tæknin kallaðist „collage" eða klippimyndastíll sem er um 100 ára gamalt listform og ég tileinka mér mjög mikið í minni listsköpun. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en ég fór fyrir alvöru að vinna við list mína að þetta form hafði fylgt mér mjög lengi á einhvern hátt."


Vildi ekki tapa frelsinu til að skapa

Að náminu loknu flutti Íris til Kaupmannahafnar þar sem hún stefndi á frekara nám, nú í margmiðlun.

„Ég fann mig engan veginn í því, fannst ég tapa frelsinu til þess að skapa og vera allt of bundin við tölvuna. Ég hætti og hellti mér á fullum krafti í að skapa, án tölvunnar."

Íris segist hafa farið að klippa, líma, mála og teikna – allt í belg og biðu. „Það var frábært að slíta sig aðeins frá þessu vélræna, þó að ég vissi í rauninni ekkert hvað ég var að gera, nema fá útrás fyrir litagleði og tilfinningar.

Ég var svo heppin að kynnast frábæru fólki í Danmörku og nota það tengslanet enn í dag, sem er ómetanlegt. Ég setti upp síðu á netinu með nokkrum myndum sem ég hafði gert og seldi strax tvær þeirra sem var auðvitað mikil hvatning og ég tók mig ósjálfrátt alvarlegar sem listamann."

Írisi bauðst svo að halda sýningu með dönskum listamanni í litlu fallegu galleríi í Álaborg. Eftir að hún flutti heim hélt hún einkasýningu á Hönnunar Mars. Hún hefur tekið þátt í nokkrum samsýningum með muses.is, sem hún kallar grasrótarlistasamfélag á netinu.


Næst á dagskrá: Vopnafjörður

Íris vinnur í verslun og galleríi samhliða listinni og hún tekur að sér verkefni sem grafískur hönnuður.
„Ég hef því ekki alveg jafn mikinn tíma til þess að vinna að verkum mínum og ég vildi en reyni eftir bestu getu að halda mig við efnið með því að skapa og sýna. Ég er nýkomin heim frá Kaupmannahöfn þar sem ég hélt litla einkasýningu. Það gekk frábærlega og fengu verkin góðar móttökur og því heldur tengslanetið mitt áfram að stækka og dafna. Næst á dagskrá er að halda sýningu á mínum æskuslóðum á Vopnafirði, í Kaupvangskaffi, og hlakka ég mjög til þess."

dagruniris web2dagruniris web3dagruniris web4dagruniris web5dagruniris web6dagrunirs web1dagruniris web7