80% nemenda í 8.-10. bekk Egilsstaðaskóla þekkja jafnaldra sem hafa sent eða fengið senda nektarmynd
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 20. maí 2015 15:11 • Uppfært 28. maí 2015 11:41
Þórdís Elva Þorvaldsdóttir hélt fyrirlestur um „sexting" og hefndarklám, fyrir nemendur og kennara Grunnskóla Egilsstaða í dag. Hún mun halda annan fyrirlestur um sama málefni í skólanum í kvöld, en hann verður öllum opinn og hefst klukkan 20:00.
Þórdís er fyrirlesari og höfundur fræðsluefnis fyrir börn og unglinga, verðlaunamynda á borð bið Fáðu já! og Stattu með þér!
„Ég er að ræða um „sexting" og hrelliklám, sem má segja að séu tvær hliðar á sama peningi. Sexting er það að senda kynferðisleg smáskilaboð, oft ljósmynd sem sýnir nekt eða hefur ríkan kynferðislegan undirtón. Hrelliklám er það að setja nektarmynd eða myndskeið á netið, án samþykkis þess sem sést á myndinni.
Ástæða þess að ég tala um að þetta sé í rauninni tvær hliðar á sama peningi er sú að oft er uppruni hrellikláms í sexting – einhverjir senda kynferðisleg skilaboð sín á milli og allt er í góðu. Svo kannski breytast aðstæður eða þá að óprúttinn þriðji aðili kemst yfir gögnin, en þá breytist það sem var skemmtileg dægrastytting í hreina martröð, því þegar myndin fer á netið verður hún þar að eilífu."
Upplýst samfélag er sterkasta forvörnin
Þórdís segir að fyrirlesturinn í morgun hafi gengið mjög vel, en hún hóf leikinn með 100 nemendum í 5.-10. bekk. Eftir það komu nemendur í 8.-10. bekk
„Þegar ég spurði hvort þau þekktu dæmi um jafnaldra sem hefði fengið senda nektarmynd eða sent einhverjum öðrum slíka mynd, þá rétti 80% þeirra upp hönd. Í kringum 10% þeirra þekkti dæmi um jafnaldra sem hafði lent í hrelliklámi. Það er því full ástæða til að ræða þessi mál við börn og unglinga í dag – ekki síst í ljósi þess að það sem fer á netið er komið til að vera þar. Maður getur lent í því að vera ber það sem eftir er. Ég hlakka ekki síður til að fræða foreldrana og aðra áhugasama í kvöld, eftir þessa góðu morgunstund með krökkunum. Upplýst samfélag er sterkasta forvörnin."
Mikilvægast að kenna börnum að draga mörk
Er þörfin fyrir svona fræðslu alltaf að vaxa? „Ég tel svo vera, en rannsóknir sýna að sterk fylgni er milli þess að eiga snjalltæki annars vegar og nektarmyndasendinga hins vegar. Í ljósi þess að sífellt fleiri börn eru komin með snjalltæki og meðalaldur þeirra er sífellt lægri koma fleiri mál upp á yfirborðið sem tengjast börnum og nektarmyndasendingum. Þeim mun yngri sem börn eru, því vanþroskaðri er dómgreindin og þá getur stundum verið stutt í hvatvísar ákvarðanir sem geta því miður haft ævilangar afleiðingar."
Hlutverk foreldra að setja skýr mörk
Hvert er hlutverk foreldra og hvernig standa þeir sig? „Ég get ekki alhæft um alla foreldra – en ég held að margir foreldrar eigi erfitt með að fóta sig í þessum nýja, nettengda veruleika. Sjálf ólst ég ekki upp við Snapchat eða Instagram, svo ég veit af eigin reynslu að stundum getur verið snúið að setja sig í spor þeirra sem eru að vaxa úr grasi í dag. Stundum er tilhneiging foreldra að fyllast óöryggi og banna hreinlega tækni sem þeir skilja ekki, en ég held að leiðin fram á við sé frekar að kenna börnum skýrar samskiptareglur á netinu. Tækninni mun sífellt fleygja fram og það er ekki á færi foreldra að vera alltaf í fararbroddi tækninýjunganna, en hins vegar er hægt að innræta börnum ákveðin gildi sem geta reynst leiðarljós í frumskógum netsins.
Það sem mér finnst mikilvægast að undirstrika við foreldra, er að setja ábyrgðina þar sem hún á heima, og hafa hafa afskaplega skýra. Að þegar um hrelliklámsmál er að ræða er sökin ekki hjá þeim sem sést á myndinni, heldur hjá þeim sem dreifir henni í leyfisleysi, það er dreifingin sem veldur skaðanum. Hins vegar er góð vísa aldrei of oft kveðin – ég mæli ekki með því að börn undir 18 ára taki af sér nektarmyndir, það brýtur í bága við lög og varðar við barnaklám. Það er afskaplega mikilvægast er að bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum – bæði á netinu og annars staðar."
Hefndarklámslöggjöf nauðsynleg
Samkvæmt Þórdísi er engin sérstök hrelliklámslöggjöf er á Íslandi. „Það væri óskandi að slík löggjöf væru við lýði, hún er til staðar í 12 löndum nú þegar og þeim löndum fer sífellt fjölgandi. Gleðitíðindin eru þó þau að það er búið að leggja fram þingsályktunartillögu sem gerir hrelliklám að refsiverðu athæfi, þar sem kjarni málsins er að nektin sé ósamþykkt. Það að gera þetta af refsiverðu athæfi eru mjög þörf skilaboð út í samfélagið."
Ljósmynd: Sigtryggur Ari Jóhannsson