Lifandi handverkssölusýning og „PopUp" kaffihús á Eskifirði
![kata glerlistakona eskifirdi juni14](/images/stories/news/folk/kata_glerlistakona_eskifirdi_juni14.jpg)
Glerlistakonan Katrín Guðmundsdóttir frá Eskifirði, er í forsvari verkefnisins og segir að markmiðið sé að reyna að sameina handverksfólk í Fjarðabyggð og koma þannig þeirra metnaðarfullu vinnu á framfæri.
„Þetta er svakalega spennandi. Við erum búin að gera salinn mjög huggulegan, að ekta kaffihúsi.
Sum okkar verða að vinna að sínum vörum á staðnum, þannig að með sanni má segia að um lifandi sölusýningu sé að ræða. Vöruúrvalið er mjög fjölbreytt og skemmtilegt – prjóavörur, gler, leir, timbur, skart og myndlist svo eitthvað sé nefnt.
Við erum bara að prófa okkur áfram, en vonandi er þetta komið til að vera. Mig langar til þess að hvetja allt handverksfólk í fjórðungnum til þess að hafa samband gegnum Facebooksíðuna Handverksfólk í Fjarðabyggð og vera með okkur í þessu skemmtilega verkefni.
Við viljum einnig hvetja alla til þess að koma við hjá okkur um helgina. Þó svo að það verði fjögur skemmtiferðaskip í bænum með alls
rúmlega 2000 farþegum, þá er viðburðurinn alls ekki aðeins hugsaður fyrir þá, heldur alla Austfirðinga," segir Katrín.
Sesam brauðhús er handverksbakarí
Árni Már Valmundarson, viðskiptastjóri Lostætis og Sesam brauðhúss, segir að hugmyndin um þeirra aðkomu hafi kviknað á undirbúningsfundi fyrir komu skemmtiferðaskipa á Eskifjörð. „Þar kom þessi hugmynd, að Sesam brauðhús setti upp lítið, krúttlegt „PopUp" kaffihús í miðju Valhallar, innan um fjöldan allan af handverksfólki sem verður með glæsilega sölusýningu á sínum vörum.
Við erum að sjálfssögðu mjög spennt fyrir þessu skemmtilega verkefni og ætlum að bjóða upp á brot af því besta, enda er Sesam brauðhús handverksbakarí þannig að við eigum vel heima meðan handverksfólks.
Við hvetjum alla til þess að kíkja við í Valhöll um helgina og fá sér rjúkandi kaffi, eitthvað gósætt að borða og skoða hið frábæra úrval sem verður til sölu hjá handverksfólkinu okkar."