„Seyðisfjörður er skapandi kynferðisleg fullnæging": Miðasala á LungA er hafin
![LungaArtFestival web](/images/stories/news/2015/LungaArtFestival_web.jpg)
Hátíðin fer fram á Seyðisfirði dagana 12 - 19. júlí og inniheldur listasmiðjur og fjölda viðburða í vikulangri dagskrá. Veglegir afmælistónleikar verða hápunktur hátíðarinnar í ár.
Ólafur G. Eggertsson, fjölmiðlafulltri hátíðarinnar, segir opnunarhátíðina verða tilkomumeiri í ár, í tilefni 15 ára afmælisins.
„Hópur af LungA þátttakendum mun hjálpast að við að búa til ævintýralegt þema fyrir opnunina og það verður margt óvænt og spennandi þar á ferð. Smiðjurnar eru einnig ótrúlega spennandi og það er mjög flottur og fjölbreyttur hópur af listamönnum, leikurum, tónlistarmönnum og fleirum sem leiða þær. Það verður gaman að sjá afraksturinn þegar þátttakendurnir sýna verkin sín.
Svo er auðvitað gífurleg tilhlökkun til afmælistónleikana sem haldnir verða á laugardagskvöldinu, en tónleikasvæðið við gömlu fiskvinnsluna verður ævintýraleg upplifun. Þar sem Sykur, Grísalappalísa, Reykjavíkurdætur, Dj flugvél og geimskip og Gangly koma fram.
Ekki einungis skarta tónleikarnir mögnuðum hljómsveitum heldur verður öll umgjörðin í kringum tónleikana töfrandi. Það verður heill her fólks sem mun sjá um að byggja sviðið og skreyta og hanna tónleikasvæðið vikuna fyrir tónleikana. Það verður virkilega spennandi að sjá útkomuna af þeirri vinnu."
Hátíðin hefur vaxið og þróast ævintýralega
Ólafur segir hátíðina hafa vaxið og þróast ævintýralega ár frá ári og hafi farið úr því að vera lítil hátíð með 20 þátttakendum, yfir í að vera stór alþjóðleg listahátíð. Markmiðið sé að kynna mismunandi listir og menningu, en jafnframt að gefa fólki tækifæri á að kanna nýjar hliðar á sjálfu sér í gegnum listsköpun hefur auðvitað fengið gífurlega góðan hljómgrunn.
Í fréttatilkynningu frá hátíðinni segir að ekki sé auðvelt að lýsa andrúmsloftinu á LungA, en prófessor Goddur hafi kannski komist næst því með þessum orðum; „Það er sérstakt andrúmsloft hér sem erfitt er að lýsa – það er eins og að reyna að lýsa kynferðislegri fullnægingu fyrir fólki sem aldei hefur kynnst kynferðislegri fullnægingu. Seyðisfjörður er skapandi kynferðisleg fullnæging. Þú verður að upplifa hana til að skilja."
Miðasala á stórtónleika hátíðarinnar er hafin á tix.is, auk þess sem opnað hefur verið fyrir skráningar í listasmiðjur á www.lunga.is, en síðast fylltust þær á fáeinum dögum.