„Allir lögðust á eitt til þess að gera daginn sem eftirminnilegastann"
![100 ara afmaeli faskrudsfjardarkirkju web](/images/100_ara_afmaeli_faskrudsfjardarkirkju_web.jpg)
Biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, predikaði og prófastur, nágrannaprestar og safnaðarfólk þjónustaði við athöfnina ásamt sóknarpresti. Flutt voru fjölbreytt söng- og tónlistaratriði og að að messu lokinni var gestum boðið til kaffisamsætis í Skólamiðstöðinni.
Séra Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, sóknarprestur í Fáskrúðsfjarðarkirkju, segist mjög þakklát fyrir hve allt gekk vel og dagurinn hafi verið yndislegur í alla staði.
„Það hefur verið mikill undirbúningur – bæði við kirkjuna sjálfa, innan sem utan, en einnig við dagskrá hátíðarinnar í tónum, tali og veisluhaldi. Allt það góða fólk sem leitað var til við undirbúning og þátttöku var einstakt, jákvætt og allir lögðust á eitt til þess að gera daginn svo eftirminnilegan.
Þátttaka í sjálfri afmælishátíðinni var mjög góð, troðfull kirkja, heimafólk mætti vel og einnig var margt góðra gesta, bæði frá nágrannabyggðum og enn aðrir, gôðir vinir og velunnarar kirkjunnar lengra að komnir.
Skemmtilegast þótti mér hve vel tókst til við að blanda saman öllum aldri, börnum og fullorðnum, þannig að það aldursbreiddin var mikil, bæði þátttakenda og kirkjugesta. Yfirbragðið var þvi í senn hátíðlegt en líka létt og skemmtilegt eins og góð afmæli eiga auðvita að vera.
Lumar þú á myndum úr Fáskrúðsfjarðarkirkju?
Afmælishátíðin á sunnudaginn er fyrsti viðburður af nokkrum sem verða á afmælisárinu. „Kirkjan verður áberandi í dagskrá Franskra daga. Á haustmisseri og aðventu verður einnig borið meira í samverustundir í tilefni aldarafmælisins. Stefnt er á að halda myndasýningu og því viljum því hér með óska eftir því að þeir sem eiga myndir af stundum í kirkjunni í gegnum tíðina hafi samband."
Ljósm: Jónína G. Óskarsdóttir