„Veiddist ekki einu sinni marhnútur": Bryggjusprell á Reyðarfirði
Slysavarnardeildin Ársól á Reyðarfirði stóð fyrir viðburðinum Bryggjusprell á miðvikudaginn.Er þetta annað árið í röð sem er Bryggjusprellið er haldið, en þar efnir Ársól til dorgveiðikeppni og býður upp á grillaðar pylsur.
Harpa Vilbergsdóttir, formaður deildarinnar, segir að viðburðurinn sé vondandi kominn til þess að vera. „Ástæða þess að við héldum Bryggjusprellið í fyrra var að við vorum þá óformlega að vígja kassa undir björgunarvesti, sem staðsettir eru á Barkinum annars vegar og bryggjunni hins vegar. Við héldum sprellið á bryggjunni í fyrra en í ár þótti okkur tilvalið að prófa Barkinn, fínu uppgerðu bryggjuna við Valhöll.
Hafnarbakkakassinn hefur hangið þar í fjölda ára en mun fara á smábátahöfnina mjög fljótlega, auk þess sem við létum gera annan eins og setja á Barkinn. Yfir sumartímann eru björgunarvesti í kössunum til afnota fyrir dorgara og sjófarendur.
Önnur ástæða fyrir þessum viðburði er sú að okkur langaði að bæta við dagskrá sjómannadagsins á Reyðarfirði, en undanfarin ár hefur einungis verið haldið sjómannadagskaffi á vegum deildarinnar á staðnum."
Vonast eftir vitundarvakninu varðandi björgunarvesti
Harpa segir að það sé allur gangur á því hvort börn og foreldrar séu nægilega meðvituð um hætturnar sem felast á bryggjusvæðinu. „Við vonum innilega að með þessum árlega viðburði og björgunarvestakössunum verði vitundarvakning meðal allra um mikilvægi þess að vera í vesti, jafnt við dorg á bryggjunni sem og í báti úti á sjó.
Léleg veiði í ár
Harpa segir að veðrið hafi mögulega sett strik í reikninginn í ár. „Mætingu má mæla út frá því hversu margar pylsur eru grillaðar. Í fyrra kláraðist lagerinn en núna var smávegis eftir.
Svo má gantast með annars konar „mætingu", en bjartsýnir meðlimir í deildinni áttu von á miklu fiskeríi í fyrra. Eitthvað var þó minna um það og komu á land rétt um 20 fiskar sem gerði það að verkum að breyta þurfti flokkum í dorgveiðikeppninni. Ekki gekk betur í ár þar sem alls enginn fiskur kom á land, ekki einu sinni marhnútur!