Fjörug helgi framundan á Austurlandi
![sjomannadagur](/images/bryggjusprell/sjomannadagur.jpg)
Sjómannadagshelgin í Fjarðabyggð
Sjómannadagshelgin er ein stærsta sumarhátíð Fjarðabyggðar og nær dagskráin yfir fjóra daga.
Skipulögð dagskrá hefst á Eskifirði kvöldið 4. júní og á Norðfirði 5. júní. Á Fáskrúðsfirði er dagskrá 6. og 7. júní.
Fjörufjör, sjósund, dorgveiðikeppnir, kappróður, diskótek, kaffisala, listasýningar, sjómannadagsmessur, unglingaball, skemmtidagskrá, grillveislur, hópsiglingar og margt, margt fleira. Þá leika Friðrik Ómar, Erna Hrönn og hljómsveit fyrir dansi á Eskifirði og Skítamórall í Neskaupstað. Dagskrána í heild sinni má sjá hér.
Sjómannadagur á Vopnafirði
Sjómannadeginum verður fagnað á Vopnafirði á sunnudaginn með því að halda „bryggjuleikana" að nýju eftir nokkurra ára hvíld. Áður en að fjörinu kemur heldur björgunarbáturinn Sveinbjörn Sveinsson ásamt smábátum í siglingu um fjörðinn, verður frá landi farið kl. 11:00.
Kl. 14:00 er athöfn við minnisvarðann um drukknaða sjómenn með hefðbundnu formi. Að athöfn lokinni stendur Mikligarður opinn fólki og þess bíður myndarlegt kaffihlaðborðið.
Ný grunnsýning opnuð í Minjasafni Austurlands
Minjasafn Austurlands býður til dagskrár og opins húss á laugardaginn frá kl. 13.30 til 17.30 í tilefni nýrrar grunnsýningar safnsins sem ber heitið „Hreindýrin á Austurlandi". Enginn aðgangseyrir og allir velkomnir.
Sýningarhönnuður er Björn G. Björnsson. Verkefnið var unnið í samstarfi við Náttúrustofu Austurlands og Umhverfisstofnun á Egilsstöðum, auk þess sem ýmsir einstaklingar og stofnanir veittu sýningargerðinni lið.
Vortónleikar og Hallormsstaðaskóli kvaddur
Vortónleikar Tónlistarskólans á Egilsstöðum verða haldnir á Hallormsstað á laugardag og hefjast þeir kl. 14 í íþróttahúsinu. Ástæðan fyrir því að tónleikarnir eru svona seint er sú að þetta er síðasti veturinn þar sem kennt verður á Hallormsstað og tónlistarskólinn og grunnskólinn sameinast um að halda þennan dag hátíðlegan.
Að tónleikunum loknum verður boðið upp á kaffi og kökur, skólaslit grunnskólans fara fram og búast má við að haldin verði ávörp. Meðal gesta er Jón Guðmundsson, sem lengi var kennari og skólastjóri tónlistarskólans á Hallormsstað, og ætlar hann að segja aðeins frá tónlistarkennslu á Hallormsstað.