Ætlar að komast í spígat fyrir jól: Bjarmi Hreinsson er í yfirheyrslu vikunnar

bjarmih 001 cropEins og Austurfrétt greindi frá því í vikunni, þá sló Bjarmi Hreinsson, lyftingarmaður frá Egilsstöðum, Íslandsmetið í snörun í 94 kg flokki karla á Íslandsmótinu í ólympískum lyftingum. Því þótti tilvalið að taka Bjarma í yfirheyrslu.

Bjarmi er uppalinn á Egilsstöðum, en hefur verið búsettur í Reykjavík undanfarin tvö ár þar sem hann stundar nám í skapandi tónlistarmiðlun við Listaháskóla Íslands. Í skapandi tónlistarmiðlun er áhersla lögð áhersla á haldgóða, almenna tónlistarþekkingu, auk þess að veita nemandanum alhliða þjálfun á aðalhljóðfæri sitt.

„Aðalhljóðfæri mitt er píanó og hef ég lært á það frá sjö ára aldri. Mér finnst ótrúlega gaman að semja tónlist og syng mikið í kórum og ber þar helst að nefna kammerkórinn Hljómeyki, en í sumar tökum við þátt í Kórahátíð í Suður Tyrol við landamæri Ítalíu og Austurríkis.

Ég byrjaði að stunda líkamsrækt í menntaskóla, en auk þess hafði ég alltaf verið í frjálsum íþróttum, aðallega kastgreinum. Eftir menntaskólann fór ég að fikta við Ólympískar lyftingar og eftir að ég fluttist til Reykjavíkur hef ég verið að æfa þær eingöngu með fínum árangri, en ég æfi hjá Lyftingafélagi Reykjavíkur í Crossfit Reykjavík. Stefnan er sett á áframhaldandi bætingu.

Langtímamarkmiðið er að keppa á Ólympíuleikunum í Tokyo 2020 – það væri draumur!

Fullt nafn: Bjarmi Hreinsson

Aldur: 22

Starf: Sumarvinna sem flokkstjóri hjá Vinnuskólanum á Fljótsdalshéraði. Við vorum að búa til Facebooksíðu, Vinnuskólinn á Fljótsdalshéraði, þar sem ég ætlum að sýna hvað það er í raun og veru gaman að vinna í Vinnuskólanum. Þar er líka hægt að koma með ábendingar um það sem betur má fara í bænum. Allir að læka!

Maki: Nei

Börn: Nei

Draumastaður í heiminum? Fallegur sælureitur með nýstilltum Steinway-flygli og lyftingasetti þar sem ég gæti „droppað" lóðunum án þess að eiga von á morðhótunum frá Steina í sundlauginni.

Hver er þinn helsti kostur? Get verið mjög fyndinn (mér finnst það allavega).

Hver er þinn helsti ókostur? Get verið ótrúlega ófyndinn (flestum finnst það sennilega).

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú varst lítill? Ætlaði að verða besti píanóleikari í heimi, en núna er planið að verða sterkasti Jón Ólafs í heimi.

Hvernig líta kosífötin þín út? Þægilegar gallabuxur og Newcastle United treyja.

Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Húmor. Það þarf að vera hægt að gera gott grín, annars á ég í erfiðleikum með að umgangast manneskjuna.

Hvernig hljómar óska laugardagskvöld? Gott partý með góðu fólki eftir góðan dag.

Hver er þín helsta fyrirmynd? Pabbi minn hefur yfirleitt staðið sig vel í því hlutverki, en mamma mín dekrar svo mikið við mig að ég verð að fá að nefna hana líka.

Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Ludwig Van Beethoven – til þess að tékka á því hvort hann hafi í raun haft hugmynd um hvað hann var að gera.

Settir þú þér áramótaheit? Að komast í spígat fyrir næstu jól. Held ég sé kominn í rúmlega 90 gráður þannig að þetta er allt á réttri leið.

Ef þú ættir eina ósk, hver væri hún? Að það tæki hálftíma að keyra til Egilsstaða frá Reykjavík.

Ef þú myndir vinna Víkingalottópottinn, hvað myndir þú gera við peningana? Kaupa flugvél svo ég gæti flogið til og frá Reykjavík þegar mér sýndist. Eða bara kaupa mér árskort hjá Flugfélaginu, það er kannski einfaldara. Svo myndi ég vilja setja upp bobsleðabraut í Selskógi.

Hvað ætlar þú að gera um helgina? Ball með Friðriki Ómari er að skora hátt.

Kannski ein fyrir þig...ertu snar í snúningum? Já, ekki fyrr en eftir hádegi þó.


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.