Sjómannadagsblað Austurlands 2015
![sjomannadagsblad auusturlands 2015](/images/stories/news/2015/sjomannadagsblad_auusturlands_2015.jpg)
Á meðal efnis í blaðinu má nefna ítarlega frásögn Andrésar Skúlasonar frá því er Mánatindur SU strandaði á síldarvertíðinni 1983, og kraftaverkabjörgun báts og áhafnar, Smári Geirsson skrifar um Norðfirðinga á enskum togurum og Eskfirðingurinn Magnús Guðnason segir í fyrsta sinn opinberlega frá því er hann horfði á félaga sinn fara fyrir borð á skuttogaranum Hólmanesi fyrir réttum 30 árum.
Sjómannabörn frá Stöðvarfirði og Eskifirði segja frá því hvernig var að alast upp með föður á sjó, sagt frá þremur ströndum á Seyðisfirði, óvæntum afla sem komið hefur um borð í Sigurð Ólafsson SF frá Hornafirði og Magni Kristjánsson og fleiri segja frá kynnum sínum af aflaskipstjóranum Sigurjóni Valdimarssyni, frá Norðfirði, en hann lést skömmu fyrir sjómannadag í fyrra. Grétar Rögnvarsson, skipstjóri á Eskifirði, segir skemmtisögur af samferðamönnum sínum til sjós, Sigurbjörg Bóasdóttir, frá Reyðarfirði, rifjar upp sjö ára sjómannsferil sinn á frystitogaranum Snæfugli, Venus NS, nýtt og stórglæsilegt uppsjávarveiðiskip með heimahöfn á Vopnafirði er kynnt til sögunnar og lauslega fjallað um verbúðarlíf á Hornafirði um miðja síðustu öld.
Þeir sem ekki búa á Austurlandi geta nálgast blaðið í Grandakaffi í Reykjavík eða pantað á vefnum www.sjoaust.is.
Ritstjóri Sjómannadagsblaðs Austurlands er sem fyrr Kristján J. Kristjánsson, frá Sjónarhóli á Norðfirði.