Kennir Ármanni Einarssyni um botnlausan Liverpool-áhuga

sigfus guttormsson2Héraðsmaðurinn og Liverpoolaðdáandinn Sigfús Guttormsson er að skrifa ævisögu knattspyrnuhetjunnar Steven Gerrard, en sjálfur er hann gallharður stuðningsmaður Liverpool.

Í bókinni rekur Sigfús sögu þessa frábæra knattspyrnumanns, en Gerrard er að ljúka löngum og glæstum ferli sínum með Liverpool og er talinn einn af bestu leikmönnum í sögu félagsins. Bókin er unnin í samvinnu við Liverpoolklúbbinn á Íslandi og verður gefin út af bókaútgáfunni Hólum í haust.


Ármanni Einarssyni að þakka eða kenna

Sigfús er einn harðasti stuðningsmaður Liverpool sem um getur og Austurfrétt lék forvitni á að vita hvernig það kom til og hefur þróast gegnum tíðina.

„Ég hef haldið með Liverpool frá því ég var 11 ára í grunnskólanum á Egilsstöðum. Einn bekkjarfélagi minn, Ármann Einarsson tónlistarkennari og dansari í útlöndum með meiru, gaf mér einn góðan veðurdag mynd af enska knattspyrnumanninum Kevin Keegan. Áður hafði ég ekki haft nokkurn áhuga á knattspyrnu, en myndin kveikti mikinn áhuga og svo vildi til að Kevin Keegan var á þessum tíma leikmaður Liverpool.

Á einhvern hátt heillaðist ég algjörlega af Liverpool í gegnum Kevin og knattspyrnu almennt. Ég hef seinna grínast með að myndin hefði getað verið af einhverjum leikmanni í öðru liði og þá hefði ég haldið með því!

Þó á ýmsu hafi gengið hjá Liverpool í gegnum árin þá er ég mjög ánægður með að myndin var af leikmanni Rauða hersins. Ég á því þennan knattspyrnuáhuga og stuðninginn við Liverpool Ármanni að þakka, eða þá að hann sé Ármanni að kenna. Stundum hefur líklega einhverjum þótt nóg um áhugann og jafnvel mér sjálfum hvað þá konunni minni," segir Sigfús.


Fór á KR – Liverpool á Laugardalsvelli

Sigfús segist frá unga aldri hafa haft mikinn áhuga á sagnfræði. „Í stað þess að lesa um síðari heimsstyrjöldina, Rómaveldi og landnámsmenn Íslands fór ég, eftir að ég byrjaði að halda með Liverpool, að lesa og kynna mér sögu félagsins, sem og borgarinnar Liverpool.

Það segir sér svo sjálft að ég horfi á leiki liðsins, en nú er hægt að sjá allt í beinni útsendingu hvar sem maður er staddur í heiminum. Þegar ég byrjaði hlustaði maður á útvarpslýsingar í BBC, las fréttir í Tímanum þegar hann kom með póstinum upp í Fell tvisvar í viku og horfði á þáttinn um ensku knattspyrnuna í sjónvarpinu á laugardögum.

Áhuginn hefur svo leitt mig nokkrum sinnum til Liverpool, auk þess að sjá liðið spila í Leeds, London, Cardiff og Blackburn. Reyndar sá ég Liverpool spila fyrst í Reykjavík sumarið 1984 þegar liðið mætti KR á Laugardalsvellinum. Þá fór ég suður með flugi og var nánast sá eini í stúkunni sem fagnaði mörkum Liverpool, en leiknum lauk 2:2."



Verður að grípa tækifærin þegar þau gefast

Sigfús segist alltaf hafa haft gaman af því að skrifa og hefur skrifað í Rauða herinn, tímarit Liverpoolklúbbsins á Íslandi, á vefsíðuna Liverpool.is og á vefsíðuna LFChistory.net, sem er vefsíða sem inniheldur allt um sögu Liverpool Football Club.

„Sagan á bak við skrif mín á bókinni um Steven Gerrard er ekki löng. Guðjón Ingi Eiríksson hjá bókaútgáfunni Hólum hafði samband við mig í kringum áramótin og spurði hvort ég gæti hugsað mér að skrifa bók um Steven Gerrard. Ég var þá að fara til dvalar í útlöndum með konu minni og sagði honum að ég myndi hugsa málið á meðan ég myndi ferðast um Evrópu og Asiu. Ég hafði aldrei haft trú á því að ég gæti skrifað bók eða hugsað mér það, en ég ákvað að láta á það reyna hvort ég gæti það. Hugsaði með mér að maður verði að grípa tækifærin sem gefast. Guðjón hafði stungið bókarskrifum að mér áður en ég gaf það frá mér og hann hefði varla farið að bjóða mér það í þriðja sinn."


Gerrard með heimþrá á fyrsta stórmótinu

Sigfús heldur mikið upp á Steven Gerrard, sem er að hans áliti einn besti knattspyrnumaður sinnar kynslóðar á Bretlandseyjum. „Steven er fæddur í Liverpool og æfði með liðinu frá átta ára aldri eða svo. Stuðningsmenn Liverpool hafa lengi tekið mestu ástfóstri við leikmenn sem hafa alist upp hjá félaginu og orðið góðir í aðalliðinu. Hann sýndi Liverpool líka alltaf hollustu og ákvað að leggja alla sína krafta í félagið þótt öll stórlið í Evrópu byðu honum gull og græna skóga. Steven uppfyllir allt sem stuðningsmönnum Liverpool líkar best hjá sínum mönnum og gerir þá að hetjum í þeirra augum.

Þegar hann var lítill dreymdi hann um að spila þó ekki væri nema einn leik fyrir Liverpool og sjálfur segir hann að með fyrsta leiknum hafi bernskudraumur hans ræst. Ferillinn varð svo ævintýri eins og hjá öðrum sem komast í fremstu röð í sinni íþrótt. Saga hans er líka áhugaverð út frá mannlegu sjónarmiði. Hann er auðvitað bara venjulegur maður, ekki hefur allt gengið upp og hann hefur gert sín mistök eins og aðrir. Hann barðist til dæmis lengi við efasemdir um eigin getu og hæfielika. Sem dæmi má nefna að þegar hann fór á sitt fyrsta stórmót með enska landsliðinu hafði hann svo mikla heimþrá að hann langaði bara mest til að fara heim til pabba og mömmu."


Sleppt í gegn með ævisöguna í Kína

„Ég hef haldið til með konu minni í suður Þýskalandi frá því í janúar. Við höfum ferðast vítt og breitt um Evrópu auk þess að fara til Hong Kong og meginlands Kína.. Ég hef verið að lesa mér til um Steven Gerrard og undirbúa ritun bókarinnar á milli ferðalaga og á þeim. Til gamans má geta þess að ég tók ævisögu hans með mér til Kína. Á einni af mörgum eftilitsstöðvum sem við fórum í gegnum, skoðaði vörður ofan í bakpokann minn eftir að hann fór í gegnum gegnumlýsingartæki. Hann sá örugglega bækur þar og hermt er að ekki séu allar bækur velkomnar í landið. Hann tók bókina upp, skoðaði hana í krók og kring og bar ritið undir samstarfsmenn sína. Setti hana aftur í pokann eftir skoðun og lét gott heita. Ekki veit ég hvort vörðurinn kannast við Steven Gerrard en mér þótti þetta svolítið sniðugt."

Aftast í bókinni verður „þakkarlisti" þar sem Gerrard verður þakkað fyrir framlag sitt til félagsins af hálfu stuðningsmanna Liverpool á Íslandi. Þar verða nöfn áskrifenda bókarinnar birt, en þeir sem vilja gerast áskrifendur að bókinni og fá um leið nafn sitt á þakkarlistann er bent á að hafa samband sem fyrst gegnum netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.. Steven Gerrard mun fá eintak af henni afhent við fyrsta tækifæri.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.