„Það er vegið að stúdentum úr flestum áttum": Elísabet Erlendsdóttir er nýr formaður SFHR

Elisabet Erlendsdottir webElísabet Erlendsdóttir, 23 ára verkfræðinemi frá Egilsstöðum, tók nýlega við embætti formanns Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík (SFHR).

Elísabet er á öðru ári í BSc-námi í heilbrigðisverkfræði við tækni- og verkfræðideild HR. Formaður félagsins er kosinn árlega meðal nemenda háskólans, en SFHR er hagsmunafélag stúdenta við Háskólann í Reykjavík og ber því að standa vörð um hagsmuni félagsmanna sinna.


Tilbúin að ganga í verkin og bæta kjör stúdenta

Elísabet er full eftirvæntingar að takast á við nýja hlutverkið og segir sig hafa ýmislegt til málanna að leggja.

„Ég er meðvituð um það sem er í gangi í samfélaginu og hef sérstakan áhuga á öllu sem tengist jafnréttismálum.

Ég veit af eigin raun hvernig það er að vera nemandi utan af landi í dýru háskólanámi – en ég tek námslán, treysti á almenningssamgöngur í borginni og er á almennum leigumarkaði, þar sem leigukjör á stúdentaíbúðum fyrir HR-inga eru mjög óhagstæð. Hagsmunabarátta stúdenta snýst að mörgu leyti um LÍN, samgöngur og húsnæðismál og ég hef þekkingu, reynslu og skilning á þessu öllu.

Ég get myndað mér rökréttar skoðanir og tel mín framlög til þessara baráttumála ætíð vera í hag stúdenta, þar sem ég hef reynslu af mótlæti á öllum þessum sviðum. Ég er mjög dugleg og metnaðarfull og tilbúin að ganga í verkin til að bæta kjör stúdenta eftir bestu getu – en eins og þetta er í dag, þá er vegið að námsmönnum úr flestum áttum."


Stóri draumurinn að lækka skólagjöld

Elísabet segir það mikinn kost hve nútímavædd kennsla sé í HR, skólinn sé mjög tæknivæddur og í miklum tengslum við atvinnulífið. „Það eru afar hraðar breytingar á tækniöldinni og því mikilvægt að gæði kennslunnar í skólanum haldist góð, að kennsluaðferðir og námsmat sé sem best og í samræmi við þessar breytingar.

Annars vegar vil ég sjá HR leggja áherslu á öflugt gæðamat varðandi þetta, en ég tel að skólastjórnendur hafi fullan skilning á þörfinni. Einnig vil ég sjá aukna áherslu á betri samskipti og skilning milli stjórnareininga og nemenda hvað varðar hagsmuna- og gæðamál, námsmat og kennsluaðferðir. Þá er þörf fyrir fjölbreyttari og ódýrari valkosti fyrir nemendur, t.d. í sambandi við námsgögn og mötuneyti. Stóri draumurinn væri að lækka skólagjöldin svo um munar.

Hins vegar vil ég sjá stúdentafélagið stimpla sig rækilega inn, gera sína starfsemi gagnsærri og sýnilegri fyrir öllum," segir Elísabet.


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.