Leikaraprufur fyrir Hjartastein: Leitum að bæjarbúunum
Leikaraprufur fyrir kvikmyndina Hjartastein, sem tekin verður upp á Borgarfirði í haust, verða á Egilsstöðum um komandi helgi. Leikstjórinn segir áhugann aðalmálið fyrir væntanlega leikara.„Við erum að leita að fólki á öllum aldri. Leiklistarreynslu er ekki þörf en mikilvægt að hafa áhugann,“ segir leikstjórinn Guðmundur Arnar Guðmundsson.
„Það skiptir mestu máli hvernig okkur finnst fólk passa í hlutverkið og það er er nokkuð púsluspil að velja leikarahóp. Það má í raun segja að við séum að leita að bæjarbúunum.“
Hjartasteinn gerist yfir sumar í litlu sjávarþorpi á Íslandi og fjallar um sterka vináttu tveggja drengja sem eru að taka sín fyrstu skref inn í unglingsárin og uppgötva ástina. Þór er hrifinn af Betu, sætu stelpunni í þorpinu, en þorir ekki að sýna áhuga sinn.
Kristján besti vinur Þórs á auðvelt með að tala við stelpur og þegar hann kemur auga á erfiðleika Þórs, ákveður hann að koma vini sínum til aðstoðar. Þegar málin þróast Þór í hag skapast óvænt spenna á milli drengjanna sem leiðir til óafturkræfra atburða.
Þegar hefur verið valið í aðalhlutverkin en því er leitað að fólkinu sem býr í þorpinu, jafnt ungu sem gömlu.
Myndin verður að mestu tekin upp á Borgarfirði og er fyrsta kvikmyndin í fullri lengd sem tekin er upp þar. Hún er jafnframt fyrsta mynd Guðmundar Arnar í fullri lengd en hann er þekktur fyrir stuttmyndirnar Hvalfjörð og Ártún. Hann er uppalinn á Þórshöfn og segist byggja handritið að hluta til á æskuminningum sínum.
Gert er ráð fyrir að tökur hefjist 10. ágúst og standi fram í byrjun október. „Tökutímabilið er langt og við komum með stóran hóp.
Okkur finnst þetta mjög spennandi. Bærinn er fallegur sem og svæðið allt en þarna hefur lítið verið tekið af kvikmyndum. Við höfum mætt mjög góðu viðmóti eystra sem er gaman að finna og auðveldar okkur vinnuna verulega.“
Leikaraprufurnar verða haldnar í félagsmiðstöðinni Ný-ung á Egilsstöðum laugardaginn 13. júní. Áhugasamir eru beðnir um að senda fullt nafn, heimilisfang, aldur, símanúmer og nýlega ljósmynd, sé hún tiltæk, á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.. Skráning er til 11. júní.