„Hljómurinn er hrár og þannig viljum við hafa það": VAX með nýja breiðskífu
Fjórða lagið af tilvonandi breiðskífu VAX, „Its all been done" er komið á vefinn, en áætlaður útgáfudagur breiðskífunnar er í október.Rúm fimmtán ár eru síðan hljómsveitin VAX var stofnuð, var upphaflega tríó, skipuð bræðrunum Halldóri Warén og Villa Warén, auk trommuleikarans Halls Kr. Jónssonar.
Halldór Warén, annar forsprakki hljómsveitarinnar, segir að meðlimir sveitarinnar hafi komið og farið gegnum tíðina, en blóðböndin séu það sterk að þeir bræður hafi alltaf setið eftir – en hinir og þessir hafi trommað með þeim gegnum tíðina, bera þar hæst þeir Hafþór Snjólfur Helgason, Baldvin Ab Aalen og Hallur Kr. Jónsson.
Lögin urðu til í Hvalfirði
Lagið sem kom út í liðinni viku heitir She's so Sad og er óður til hafmeyju sem liggur á ströndinni og bíður.
Halldór segir að flest lögin á plötunni hafi verið saman í Jakótíuhúsinu í Hvalfirði, þar sem þeir bræður dvöldu yfir helgi fyrir tveimur árum.
„Demóin voru tekin upp í Hvalfirði og síðan þá hafa lögin mótast. Tónlistin er að mestu samvinna og textarnir eru oftar en ekki sögur sem við sjáum fyrir okkur myndrænt og ræðum okkar á milli, en Villi klárar hugmyndirnar og kemur á blað. Traustið er svo sett á söngvarann sem verður að trúa á það sem hann syngur til að það verði sannfærandi. Nýja platan verður svokölluð „concept plata", þar sem lögin tengjast og ein heildarsaga knýr hana áfram, hálfgerð rokkópera."
Þegar Halldór er beðinn um að lýsa tónlist sveitarinnar segir hann; „Hljómurinn er hrár og þannig viljum við hafa það. Upphaflega spiluðum við breskt sixtís rokk og það hefur svolítið litað framhaldið, en við spáum lítið í það, ef okkur finnst það flott þá er það látið fara."
15/10/15
VAX hefur gefið út þrjár plötur, EP 2005, Oh no! 2005 og Greatest Hits and Covers 2011, ásamt því að eiga lög á hinum ýmsu safndiskum og bíómyndinni Astrópíu.
Halldór segir hljómsveitina hafa verið virka í tónleikahaldi gegnum tíðina – spilað á helstu tónlistarhátíðum landsins, svo sem Iceland Airwaves, Bræðslunni, Aldrei fór ég suður og nú síðast á Hammondhátíð Djúpavogi. Sveitin hefur einnig farið nokkrar ferðir til Hollands. Hann segir tónleikahaldið hafi þó dregist saman í seinni tíð þar sem hljómsveitameðlimir búi á sitthvoru landshorninu auk þess sem börn þeirra bræðra séu orðin átta talsins og því tíminn af skornum skammti.
VAX mun senda frá sér eitt lag vikulega þar til 15 lög hafa verið opinberuð. Útgáfudagur breiðskífunnar er 15/10/15.
„Framhaldið er svolítið óráðið. Við ætlum að gefa plötuna út í skömmtum í sumar og þrykkja á plast þegar okkur finnst efnið vera tilbúið. Hver veit nema við teljum í tónleika ef við getum þá spilað þessi lög, sem er alls ekki víst, og hvað þá að einhver nenni að hlusta á okkur," segir Halldór.
Samsett mynd af þeim Halldóri og Villa Warén.