Afmælishátíð Charles Ross hafin

tonleikar fherad 0002 webÞrír viðburðir mynda 50 ára afmælishátíð tónlistarkennarans Charles Ross sem kennt hefur tónlist á Austurlandi í tæp þrjátíu ár. Fyrsti viðburðurinn var í Reykjavík á mánudag en sýning og tónleikar verða eystra síðar í sumar.

Afmælishátíðin hófst með tónleikum í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi í samvinnu við tónleikaröðina Jaðarber þar sem kammerhópurinn Stelkur kom fram með Charles en hópurinn er skipaður hljóðfæraleikurum af Austurlandi.

Charles er stofnandi hópsins en með honum að þessu sinni voru Hildur Þórðardóttir, Eyrún Eggertsdóttir, Berglind Halldórsdóttir, Gillian Haworth og Suncana Slamning.

Verkið Big Mouth Sandbox vakti sérstaka lukku á tónleikunum en þar stjórnaði Charles hljóðfæraleikurum með táknum í sandkassa. Meðal annarra sem léku á tónleikunum má nefna Pál Ivan frá Eiðum og Þórunni Grétu Sigurðardóttur.

Í ágústlok verður opnuð sýning um verk Charles á Skriðuklaustri sem síðan flyst í Kirkju- og menningarmiðstöðina á Eskifirði um miðjan september. Helgina 19. – 20. september spilar Stelkur á Klaustri og Eskifirði.

Charles var fimmtugur í mars síðastliðnum. Hann flutti frá Skotlandi til Reyðarfjarðar árið 1986 og sex árum síðar í Eiða.

Hann hefur lengst af starfað sem tónlistarkennari í tónlistarskólum á Fljótsdalshéraði. Samhliða störfum sínum eystra hefur hann stundað framhaldsnám í Englandi og Skotlandi en hann lauk nýverið doktorsgráðu í tónsmíðum frá Háskólanum í Glasgow.

Í tilkynningu er Charles er lýst sem framsæknum tónlistarkennara sem virkjað hafi nemendur í spuna og til að semja sjálfur. Hann er sjálfur tónskáld og eftir hann liggur fjöldi verka. Hann hefur stuðlað að markvissu samstarfi milli atvinnutónlistarfólks í fjórðungnum.

Charles og kona hans, Suncana Slamnig hafa rekið tónlistarsumarbúðir fyrir börn og unglinga á Eiðum og eru stofnendur Sembalhátíðar, tónlistarhátíðar sem hverfist um tónlist fyrir sembal. Þar eru almennt haldnir einir barrokktónleikar og einir með samtímatónlist en hátíðin var haldin í Vallaneskirkju í vor.

Einnig hefur hann unnið með Halldóri Warén / Warén Music að útgáfu þriggja hljómdiska en einn þeirra „Kjuregej" fékk íslensku tónlistarverðlaunin árið 2013.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.