Nefna miðbæjartorgið eftir fyrstu konunni í sveitarstjórn á Austurlandi
![seydisfjordur](/images/stories/news/umhverfi/seydisfjordur.jpg)
Sólveig Jónsdóttir frá Múla settist í bæjarstjórn eftir kosningar í upphafi árs 1910. Konur buðu þá fram sérstakan lista, A-listann en í öðru sæti á honum var Margrét Björnsdóttir.
Listinn fékk 81 atkvæði af 223 atkvæðum sem greidd voru og 14 fleiri en sá er næstur kom, C-listinn, en oddviti hans, héraðslæknirinn Kristján Kristjánsson, var einnig kjörinn í bæjarstjórnina.
Í frásögn bæjarmálablaðsins Austra segir að ástæða sé „fyrir alla þá sem unna kvenfólkinu þeirra réttmætu réttinda," að gleðjast yfir fyrstu konunni sem kjörin sé í bæjarstjórn eða sveitarstjórn eystra „og vona að þær sýni nú í verkinu vit sitt og framkvæmdarsemi."
Framboðið virðist ekki hafa verið óumdeilt. Í blaðinu segir einnig frá því að andmælendur kvennaframboðsins hafi gefið út D og E lista.
Á öðrum þeirra var Kristján settur efstur en Sólveig önnur en röð kvennanna víxlað á þeim seinni. Þeir fengu fá atkvæði og í Austra segir að þessari aðferð hafi verið mótmælt á prenti að morgni kjördags.
Sólveig var dóttir Jóns Jónssonar alþingismanns og 25 ára gömul þegar hún settist í bæjarstjórnina. Hún tók þátt í að stofna kvenfélagið Hvik, sem var virkt í bæjarlífinu á Seyðisfirði upp úr aldamótunum 1900, og hafði meðal annars gengið í skóla í Kaupmannahöfn.
Heilbrigðismál munu hafa verið hennar helstu baráttumál en Sólveig sat aðeins eitt kjörtímabil í bæjarstjórninni og hætti árið 1913. Nokkrum árum seinna fluttist hún með fjölskyldu sinni vestur um haf og bjó í Baltimore í Maryland í Bandaríkjunum.
Staðfesting nafnsins verður á almennum hátíðarfundi sem haldinn verður á torginu klukkan 16:30 á morgun.
Á Egilsstöðum leggur prjónaganga Soroptimistaklúbbsins af stað frá fjórum stöðum um 2 km frá Egilsstöðum af stað klukkan 13:15. Gengið verður prjónandi að Egilsstaðakirkju. Við kirkjuna verður síðan samverustund þar sem flutt verða minningarbrot eða örsögur til minningar um konur liðanna tíma.
Um klukkan hálf þrjú verður gengið að Safnahúsinu og sýningar skoðaðar þar en á neðstu hæðinni er meðal annars sýning um austfirska kvenljósmyndara.
Þá hafa sveitarfélög, stofnanir og fyrirtæki víða um Austurland gefið starfsmönnum frí í tilefni dagsins.