„Jafnrétti til náms og starfa á að vera sjálfsagður hlutur": Jóhanna Hallgrímsdóttir í yfirheyrslu

johanna hallgrims web2Í tilefni kvennafrídagsins og 100 ára afmælis kosningarréttar kvenna þótti tilvalið að fá Jóhönnu Hallgrímsdóttur í yfirheyrslu vikunnar, en hún var áberandi í bæjarpólitíkinni á Reyðarfirði um árabil.

Jóhanna er fædd og uppalin á Eskifirði en eftir dvöl erlendis og í Reykjavík hefur hún verið búsett á Reyðarfirði í 25 ár. Hún er leikskólakennari að mennt og starfaði mörg ár sem leikskólastjóri við leikskólann Lyngholt á Reyðarfirði og einnig sem æskulýðs- íþróttafulltrúi Fjarðabyggðar.

Jóhanna er nú sérfræðingur í innkaupateymi Alcoa Fjarðaáls og hefur verið það frá upphafi fyrirtækisins.


Sameining í orði nægir ekki

Jóhanna tók fyrst þátt í framboði árið 1994 og var þá oddviti á lista sjálfstæðismanna á Reyðarfirði.

„Mikið var að gerast í sameiningarmálum á þessum tíma og var bæði spennandi og þroskandi að taka þátt í þeirri vinnu. Ég var þá og er enn mikill sameiningarsinni og tel það hafi verið skynsamlegt skref sem við tókum bæði árið 1998 þegar Fjarðabyggð varð til með sameiningu Norðfjarðar, Eskifjarðar og Reyðarfjarðar og árið 2005 þegar hún stækkaði með tilkomu Mjóafjarðar, Austurbyggðar og Fáskrúðsfjarðahrepps. En það á þó við um þetta að sameining í orði nægir ekki – sameining á borði verður að fylgja líka," segir Jóhanna.


Verður að hefja jafnréttisfræðslu strax í æsku

„Í dag er 19. júní og sá dagur er vissulega stór í sögu okkar þjóðar og við minnumst þeirra kvenna sem brautina ruddu með þakklæti og virðingu. Hvað mig sjálfa varðar þá er ég fyrst og fremst jafnréttissinni. Ég vil og tel svo sjálfsagt að bæði kynin hafi jafna möguleika og vona að sá dagur komi að ekki þurfi sértækar aðgerðir s.s. kynjakvóta til að jafna hlut kynjanna í hinum ýmsu málum. Jafnrétti til náms og starfa á að vera sjálfsagður hlutur, ekki síst í hugum einstaklinga því huglægar hindranir eru erfiðar. Það þarf að hefja það uppeldi strax meðan börnin eru ung, bæði innan heimila og skóla því að lengi býr að fyrstu gerð."


Fullt nafn: Jóhanna Hallgrímsdóttir

Aldur: 57

Starf: Sérfræðingur í innkaupateymi Alcoa Fjarðaáls

Maki: Halldór Jónasson

Börn: Sylvía Dögg

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi? Garðurinn heima hjá mér á góðum degi.

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf í ísskápnum? Tómata, ólífur og Parmesan ost.

Mesta undur veraldar? Lífið.

Ef þú gætir öðlast yfirnáttúrulegan kraft, hver væri hann? Að geta breytt til hins betra hverju því sem lagfæringar þarfnast.

Besta bók sem þú hefur lesið? Sjóarinn sem hafið hafnaði.

Hver er þinn helsti kostur? Heiðarleg og hreinskilin.

Hver er þinn helsti ókostur? Of mikil hreinskilni getur verið ókostur.

Hvaða árstíð heldur þú mest upp á og af hverju? Sumarið því þá er hlýtt (stundum) og bjart og hægt að spila golf.

Settir þú þér áramótaheit? Nei það geri ég aldrei.

Hver er þín helsta fyrirmynd? Mamma mín.

Hvað bræðir þig? Dóttursonur minn, hann Andreas Halldór.

Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Martin Luther King.

Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Heiðarleika.

Hver eru þín helstu áhugamál? Golf og aftur golf.

Hvernig ætlar þú að fagna kvennafrídeginum? Ég verð að vinna en á mínum vinnustað verður boðið til veglegrar veislu í tilefni dagsins og allar konur velkomnar.


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.