Áhrif brottfluttra mikil

LungaAusturbrú hefur ásamt samstarfsaðilum á Borgundarhólmi í Danmörku, Suðurey í Færeyjum og Vesterålen í Noregi unnið að viðamikilli rannsókn þar sem leitast er við að kortleggja virði brottflutts ungs fólks til heimahaganna í gegnum menningarviðburði. Rannsóknin gekk undir heitinu „Heima er þar sem Eyjahjartað slær" og lauk nýverið.

Flestar jaðarbyggðir eiga það sameiginlegt að ungt fólk flyst þaðan í miklum mæli, oftast til að sækja sér aukna menntun. Þetta unga og vel menntaða fólk hefur ekki skilað sér til baka og hefur af mörgum verið álitið sem svo að svæðin séu að missa mannauð varanlega. Nýlegar rannsóknir hafa hins vegar bent til þess að snúa þurfi sjónarhorninu og líta á unga brottflutta fólkið sem fjölþætta auðlind. Markmið rannsóknarinnar „Eyjahjartað" var að skoða þá nálgun betur og gera tilraun til þess að mæla þá auðlind sem felst í hinum brottfluttu. Litið var til efnahagslegra, menningarlegra og félagslegra þátta.

Þátttakendur í rannsókninni voru aðilar á jaðarsvæðum í þremur löndum auk Austurlands; Bornholm í Danmörku, Suðurey í Færeyjum og Vesterålen í Noregi. Litið var til hátíða, höldnum að frumkvæði brottfluttra í flestum. Til að meta áhrif og virði brottflutts fólks á Austurlandi voru notaðar fjórar austfirskar hátíðir: Sviðamessan á Djúpavogi, Eistnaflug í Neskaupstað, Bræðslan á Borgarfirði og LungA á Seyðisfirði. Allar eiga þessar hátíðir sameiginlegt að brottfluttir Austfirðingar annað hvort standa fyrir þeim og skipuleggja eða spila stórt hlutverk við undirbúning þeirra og framkvæmd.

Í ljós kom að meirihluti hátíðanna eru gríðarlega stórt innlegg í svæðisbundna ferðamennsku, félagslíf og menningu á þeim stöðum sem þær eru haldnar. Því er hægt að álykta að framlag brottfluttra sé mikilsvirði fyrir svæðin sem flutt er frá. Þessi niðurstaða getur nýst sem innlegg í stefnumótun og áætlanagerð á jaðarsvæðum og ýtir undir mikilvægi þess að hlúa vel að ungmennum á mótunarárum þeirra og mynda sterk tengsl við svæðin. Ennfremur að veita þurfi brottfluttum tækifæri til að viðhalda tengslum og leggja sitt af mörkum án þess endilega að flytja til baka. Í því liggur mikill mannauður sem jaðarbyggðir geta nýtt sér.

Fyrir frekari upplýsingar um rannsóknina má finna á heimasíðu verkefnisins: http://wheretheislandheartbeats.tumblr.com/


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.