Vigdís mikill og góður sendiherra skógræktarinnar
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 29. jún 2015 11:00 • Uppfært 29. jún 2015 11:01
Í dag eru 35 ár liðin frá því að Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti Íslands, fyrst kvenna til að vera kjörin þjóðarleiðtogi í almennri kosningu. Af því tilefni voru tré gróðursett víða um land, meðal annars á Austurlandi.
Vigdís kom sér upp þeirri hefð að gróðursetja þrjú tré í öllum embættisferðum sínum. Eitt var fyrir pilta, annað fyrir stúlkur og hið þriðja fyrir framtíðina.
Á Egilsstöðum voru trén gróðursett í Tjarnargarðinum. Stefán Ingi Skúlason gróðursetti fyrir piltana, Sigrún Styrmisdóttir fyrir stúlkurnar og Alda Lárusdóttir fyrir komandi kynslóðir.
„Vigdís minnti okkur á að rækta landið okkar en ekki síður mannréttindi með jöfnum tækifærum pilta og stúlkna," sagði Sigrún Blöndal, forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs.
Hún sagði kjör Vigdísar hafa markað tímamót í Íslandssögunni og hún hefði líkt ræktun trjánna við uppvöxt barna. Sigrún lýsti því að afstaða Vigdísar til umhverfisvitundar hefði haft ómetanleg áhrif á viðhorf fólks til lengri tíma.
Þór Þorfinnsson, skógarvörður á Hallormsstað, þakkaði einnig Vigdísi fyrir framlag hennar til skógræktarinnar. „Hún var mikill og góður sendiherra okkar skógræktarmanna."
Birkitrén þrjú sem gróðursettu voru eru af Embluyrki. Það hefur verið ræktað í rúm tíu ár og þykir skarta beinvöxnum trjám með góðum berki sem þoli frost auk þess sem það vaxi hraðar en önnur.