Tók þátt í samsýningu íslenskra grafísklistakvenna í Danmörku
Svandís Egilsdóttir, skólastjóri og listamaður á Borgarfirði eystra, tók nýverið þátt í sýningu fjögurra íslenska grafíklistakvenna í grafíksetri í Óðinsvéum í Danmörku.Sýningin var í Fyns Grafiske Værksted frá maí og fram í júní og bar yfirskriftina 4x4 Ísland en auk Svandísar áttu Anna Guðrún Torfadóttir, Harpa Björnsdóttir og Valgerður Hauksdóttir verk á sýningunni.
Þær eiga það allar sameiginlegt að vera meðlimir í félagi grafíklistamanna á Fjóni. Í félaginu eru alls um 200 meðlimir en það stendur að baki gestavinnustofu sem tengist sýningarsalnum. Svandís hefur verið meðlimur í félagi síðan hún lauk listnámi þar árið 1999.
Hún lýsir verkstæðinu sem „griðastað“ þar sem listamenn hafi aðgang að vinnuaðstöðu og verkfærum gegn afar vægu gjaldi. Í sýningarrýminu eru einnig möppur með myndum af verkum félaga sem liggja frammi allt árið um kring.
Á sýningunni voru verk sem hún vann með ætingu og tréristu. Verkin gerði hún þegar dvaldi í vinnustofunni fyrir tveimur árum.
„Ég vann töluvert með Hávamál á þessum tíma svo það er vísun í þau í sumum verkunum. Annars vinn ég í mismunandi stílum og er ekkert í einu þema eða mótífi,“ sagði Svandís í samtali við Austurfrétt.