Kótelettur en ekki kökur á fimm ára afmæli Bókakaffi

bokakaffi 5ara 0010 webKaffihúsið Bókakaffi í Fellabæ fagnaði í dag fimm ára afmæli sínu. Salurinn var troðfullur í hádeginu þegar boðið var upp á kótelettur í raspi upp á eins hefðbundinn máta og hægt er.

„Það var alltaf fullt hús í hádeginu á virkum dögum þegar við vorum með kótelettur og því lá beinast við að þær yrðu á afmælinu," segir Gréta Sigurjónsdóttir, eigandi kaffihússins.

„Matargestirnir voru að gera grín að því að við værum orðnar rauðar í framan af álagi. Auðvitað var þetta törn í hádeginu en það er allt í lagi að taka törn í klukkutíma."

Kaffihúsið er við nyrðri enda Lagarfljótsbrúar í húsi sem áður hýsti Bókabúðina Hlöðum. Nokkur misseri voru hins vegar frá því að hún hætti rekstri og þar til kaffihúsið opnaði.

„Ég var alltaf að horfa á þetta ónotaða húsnæði og vildi nýta það. Bókabúðir eru smám saman að leggjast af en mér virtist að það væri vinsælt að stefna saman bókabúðum og kaffihúsum.

Gestirnir kunna vel að meta að geta sest niður og fengið sér kaffi og kökur og gluggað í bækur, þótt þær séu gamlar. Hvað þá að geta fengið sér kótelettur," segir Gréta og hlær.

Kaffihúsið hefur verið í stöðugri þróun síðan það var opnað árið 2010. Fyrst var hugmyndin að vera með kaffi og kökur en síðan bættist tælenskur kokkur í hópinn og tælenski maturinn naut töluverðra vinsælda.

Þeir réttir hurfu hins vegar af matseðlinum þegar kokkurinn flutti suður til Grindavíkur. Heimamanneskja tók þá við eldhúsinu og boðið var upp á heimilismat í hádeginu.

Gréta segir það hafa gengið ágætlega en ekki staðið almennilega undir sér því nýr heitur réttur á hverjum degi kalli á mikla vinnu og mannskap.

Staðan var endurmetin síðasta haust og ákveðið að bjóða bara upp á kökur og kaffi og valda smárétti. Í sumar eru síðan grænmetissúpa og kjötsúpa á boðstólum auk þess sem ekki má gleyma kökuhlaðborði sem er í boði alla föstudaga á milli klukkan þrjú og fimm.

Gréta játar því fúslega að Fellamenn séu hennar tryggustu viðskiptavinir enda eru þeir áberandi ef farið er norður fyrir fljót í hádeginu. En kúnnahópurinn er fjölbreyttari en svo.

„Fellamenn eru duglegir að mæta en síðan kemur töluvert af Egilsstaðabúum. Ég held að okkur hafi alveg tekist að draga þá hérna norður yfir þótt þeir vilji margir hverjir ekki viðurkenna það," segir Gréta og hlær.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.