Eldri borgarar taka til hendinni: Viljum fá alvöru verkefni
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 03. júl 2015 13:35 • Uppfært 03. júl 2015 16:26
Félagar úr félagi eldri borgara á Fljótsdalshéraði hafa undanfarna snyrt svæðið í kringum útileikhúsið í Selskógi. Þeir stefna á að taka að sér fleiri verkefni í sjálfboðavinnu fyrir samfélagið.
„Hugmyndin er að eldri borgarar safni liði og fari í sjálfboðavinnu við hin og þessi verkefni," segir Gyða Vigfúsdóttir.
Fyrsta verkefnið var að bera á leiksviðið og áhorfendapallana en síðan var haldið áfram við snyrtingu svæðisins sem skartar nýjum skrúða við útimessu á sunnudag.
„Okkur finnst Selskógurinn flottur og synd að hann sé ekki snyrtur þannig að hægt sé að nota hann. Við viljum leggja okkar af mörkum til að fegra umhverfið þannig að aðrir geti komið á eftir og verið með skemmtilegheit eins og leiksýningar."
Og þeir ætla ekki að láta staðar numið í skóginum. „Við báðum um leyfi til að taka að okkur alvöru verkefni en ekki bara vera úti að labba á Vilhjálmsvelli. Þetta er líka miklu heilsusamlegra, það er frábært að vera úti í skóginum.
Við viljum fá fleiri með til að vinna verkefnin og hafa gaman af. Menn hafa til dæmis rætt að taka barnabörnin með og fara í leiki.
Það er lítil hefð fyrir sjálfboðavinnu hér en við erum mörg sem vantar verkefni og viljum standa saman að því að gera bæinn fallegri."