Olga Vocal og Sætabrauðsdrengir á ferð um Austurland
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 24. júl 2015 14:12 • Uppfært 24. júl 2015 14:18
Tveir strákasönghópar eru á ferðinni um Austfirði þessa dagana. Olga Vocal Ensemble syngur á Djúpavogskirkju í kvöld og Sætabrauðsdrengirnir halda tvenna tónleika í Fáskrúðsfjarðarkirkju.
Strákarni í Olgu héldu tónleika í kirkjunni fyrir tveimur árum síðan og segjast hlakka til að endurtaka leikinn enda hljómburður kirkjunnar mjög góður fyrir a cappella söng.
Þessir fimm ungu menn eru tilbúnir til að sigra hvert hjarta með kraftmiklum og fallegum söng ásamt einstakri framkomu. Olga fer nýjar leiðir í að nálgast gamlar hefðir. Með einlægri framkomu sinni sameinar hún eldmóð og kímnigáfu í leikrænni tjáningu sem hentar öllum aldurshópum.
Efnisskrá Olgu hefur vakið athygli fyrir óhefðbundna uppbyggingu, þar sem kraftmikil klassísk tónlist mætir vinsælum dægurlögum – allt frá íslenskum drykkjuvísum frá miðöldum, til angurværra tóna hinna gömlu góðu daga. Hljómurinn sem einkennir Olgu sameinar alla tónlist í eina heild á mjög áhrifaríkan hátt.
Olga leit fyrst dagsins ljós árið 2012 í tónlistarskóla HKU í Utrecht, Hollandi. Hún býr svo sannarlega yfir alþjóðlegum anda en meðlimir hennar eru af hollensku, íslensku og rússnesku bergi brotnu. Þau verk sem hún flytur eru frá fjölmörgum löndum, og eru eins mismunandi og þau eru mörg.
Ferill Olgu er sannarlega glæsilegur en hún á nú þegar að baki ótal tónleika á Íslandi sem og erlendis. Frá upphafi hefur hún reglulega farið til Íslands á tónleikaferðalag.
Til gamans má geta hefur hún haft það að sið að bjóða Olgum á hefðbundnu tónleika án endurgjalds og mættu í eitt skipti 13 Olgur á tónleika. Það gildir ekki fyrir kvöldverðartónleikana. Olgumenn tóku upp sinn fyrsta geisladisk árið 2014. Þeir hafa setið námskeið hjá Paul Phoenix, sem áður var í The King's Singers, og ættleiddu rauðan ketil sem lukkudýr, en hann gengur undir nafninu Ketill Olguson.
Tónleikarnir á Djúpavogi hefjast klukkan 20:00 í kvöld.
Sætabrauðsdrengirnir eru Siglfirðingurinn knái, Hlöðver Sigurðsson tenór, Gissur Páll Gissurarson tenór, Bergþór Pálsson barítón og Viðar Gunnarsson bassi ásamt Halldóri Smárasyni píanóleikara og útsetjara. Þeir hafa nýlokið söngferð um Vesturland og Vestfirði og hafa verið á ferð um Austfirði í vikunni.
Þéttur hljómur við fjörugar útsetningar er í fyrirrúmi hjá Sætabrauðsdrengjunum sem í þetta skiptið verða á léttum nótum dægurlaga, sem allir kannast við, úr ýmsum áttum og frá ýmsum tímabilum, allt frá ljúflingslögum Fúsa Halldórs yfir í Stína ó Stína og Hæ Mambó! Inni á milli slá þeir á rómantíska strengi.
Þeir syngja í Fákskrúðsfjarðarkirkju í dag klukkan 17:00 og aftur klukkan 20:00.
Klukkan hálf tíu í fyrramálið verður Urriðavatnssund ræst úr Hitaveituvíkinni við vatnið. Hægt er að velja um 2,5 sund, hálfsund eða 400 metra skemmtisund. Vantið er óvenju kalt í ár, aðeins um tíu gráður og því hefur því sérstaklega verið beint til þátttakenda að mæta til leiks í sundgöllum.
Á Fáskrúðsfirði standa yfir franskir dagar. Þeir verða formlega settir í kvöld á Búðargrund þar sem Árni Johnsen stýrir brekkusöng.
Á morgun verður minningarafhöfn í franska grafreitunum um franska sjómenn sem létust á Íslandsmiðum og helgistund í frönsku kapellunni. Í miðbænum verður síðan hátíðardagskrá eftir hádegið.
Á Seyðisfirði stendur yfir Smiðjuhátíð Tækniminjasafns Austurlands. Á morgun milli 14 og 17 verður baskneski listamaðurinn og myndasmiðurinn Steinar Kjartansson (Zuhaitz Akitu) á safninu og tekur myndir á gamla ljósmyndavél Eyjólfs Jónssonar í Gömlu Símstöðinni. Hann mun framkalla myndirnar jafnóðum og gefst fólki kostur á að láta taka myndir af sér aldamótastíl í umhverfi Eyjólfs sjálfs.
Borgfirðingar eru að leggja lokahönd á undirbúninga fyrir Bræðslutónleikana annað kvöld. Fram koma Bubbi, Dimma, Ensími, Prins Póló, Valdimar og Lára Rúnars.