„Kalda karið er vinsælt hjá öllum aldurshópum"
Síldarvinnslan færði sundlauginni i Neskaupstað nýtt kaldavatnskar á dögunum en það er vinsælt meðal sundlaugargesta.„Kalda karið er vinsælt og nýtt af öllum aldurshópum," segir Sigurjón Egilsson, forstöðumaður íþróttamannvirkja í Neskaupstað.
Sigurjón segir að þann tíma sem slíkt kar sé ekki til staðar sé mikið um það spurt, bæði að íþróttafólki sem eldri borgurum. „Við finnum hve vinsælt þetta er, en menn trúa því að það sé hollt og gott að fara í heitan pott og kalda karið til skiptis, en mælt er með að menn séu örstutt ofan í kalda karinu, kannski 20-40 sekúndur."
Gamla karið í sundlauginni var farið að láta á sjá þannig að starfsfólk og sundlaugargestir tóku gjöfinni fagnandi. Nýja karið er rautt og glæsilegt. „Það er afar gott fyrir okkur að vera komin með nýtt kar og kunnum við Síldarvinnslunni bestu þakkir fyrir gjöfina," segir Sigurjón.
Starfsmenn sundlaugarinnar, Martin Sindri Rosenthal og Bergvin Haraldsson, við nýja kaldavatnskarið. Ljósm: Hákon Ernuson.