Olíugosbrunnur í Skaftfelli: Mál sem allir þurfa að hafa skoðun á

olof benediktsdottir trarappaAllir þekkja lyktina af olíu. Hún er megn í sýningarsal Skaftfells þessa dagana því úti í horni stendur steinolíugosbrunnur. Listamaðurinn segist bæði endurspegla fegurðina sem felist í olíunni og vekja menn til meðvitundar um umhverfisáhrif hennar með verkinu.

„Fólk segir mér að því finnist verkið fallegt. Það talar um áferðina og gljáann sem skapar yfirþyrmandi fegurð. Það kemur því í opna skjöldu hversu gaman getur verið að horfa á olíuna og hreyfinguna í henni,“ segir listakonan Ólöf Rún Benediktsdóttir.

 Olíuleki er 170 á hæð. Efst er 50 cm járnklumpur og upp úr gati efst á honum vætlar olían. Hún flæðir síðan niður meðfram hliðunum.

Tvíeggjað sverð að bora eftir olíu

En olían er ekki bara fegurðin ein. Ólöf hefur unnið með samtökum sem kalla sig Changemaker og meðal markmiða þeirra er að stuðla að aukinni umhverfisvitund. Það er líka eitt af markmiðum með verkinu. 

„Olían er mál sem allir hafa skoðun á og þurfa að hafa skoðun á. Lengi vel kom hún okkur ekki við. Við notuðum hana bara en nú hafa kröfur verið um umhverfisvernd á heimsvísu verið hertar. Við þurfum að ákveða hvort við viljum bora eftir olíu á okkar svæði. 

Það getur verið tvíeggjað sverð á sama tíma og heimurinn er að reyna að losa sig við olíuna. Ef þær áætlanir takast ekki þurfum við að takast á við alvarlegar umhverfisafleiðingar en ef þær ganga eftir er óvíst hvað verður um olíumarkaðinn.

Verkið stærra en ég átti von á

Ólöf fékk aðstoð frá stálsmiðjunni Stáli við að sjóða saman verkið. Inni í klumpnum er 40 lítra olíutankur sem töluvert basl var að koma upp í sýningarsalinn.

„Það kom til sýningargestur og spurði: „Gerðir þú þetta. Ég hélt það hefði verið einhver gaur.“ Mér fannst gaman að gera svona gauralegt verk.“ 

Ólöf játar að hafa fengið „víðáttubrjálæði“ þegar hún kom austur og gert stærra verk en hún hafði hugsað sér að vinna. 

„Ég slumpaði á stærð út frá því sem mér fannst stórt en samt ekki of stórt. Hann virkaði hins vegar miklu stærri hins vegar miklu stærri en ég átti von á þegar búið var að byggja hann.“ 

Allt sem við viljum er hægt

Verkið tilheyrir sýningunni Trarappa sem lýkur um helgina. Þar gefur að líta verk myndlistarnema á lokaári við Listaháskóla Íslands. Þeir komu austur í tvær vikur fyrr í vetur og unnu að listsköpun.

„Okkur hefur verið tekið mjög opnum örmum. Við virðumst eins og lóan, vorboðinn á Seyðisfirði. Okkur var sagt að Listaháskólinn kæmi alltaf á sama tíma og sólin færi að skína ofan í fjörðinn.“

Ólöf segir þjálfunina í að vinna sjálfstætt dýrmætustu lexíuna frá Seyðisfirði. Hópurinn kemur þangað ásamt kennurunum Birni Roth og Kristjáni Steingrími Jónssyni, en þeir eru fyrst og fremst að greiða götu nemendanna.

„Ég hef ekki áður upplifað að vera sjálfstæður listamaður. Það var enginn að beina mér í ákveðna átt. Kennurunum er eiginlega alveg sama hvað við gerum. Þeir hjálpa okkur bara. Allt sem við viljum er hægt.“

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.