Austfirskt brúðkaup á CNN

tinna rut cnn webAustfirðingarnir Tinna Rut Guðmundsdóttir og Hallur Ásgeirsson gengu í hjónaband í lok júlí. Sjónvarpsstöðin CNN myndaði brúðkaupið og tók viðtal við hjónin fyrir þáttinn Wonderlist 2015 sem sýndur verður ytra í febrúar.

Tinna Rut og Hallur giftu sig í Garðakirkju laugardaginn 26. júlí síðastliðinn. Rúmri viku fyrir stóra daginn barst Tinnu Rut beiðni gegnum vinkonu sína að taka þátt í klukkustundarlangri heimildamynd í sjónvarpsseríunni Wonderlist 2015 sem er ferða- og samfélagsgreiningarþáttur sem tekinn er upp út um allan heim, þar sem „samsettar fjölskyldur" eru í brennidepli.

Tinna Rut og Hallur samþykktu að vera með en saman eiga þau tvö börn og Hallur önnur tvö úr fyrra sambandi. Sex manna tökulið fylgdi þeim eftir yfir daginn og tóku nýgiftu hjónin í viðtal daginn eftir.


Verður ómetanlegt að eiga upptökuna

„Þetta gekk allt saman mjög vel," segir Tinna. „Ég hef oft hugsað um stóra daginn, hvernig það yrði þegar ég gifti mig. Ég hlakkaði mest til þess að heyra brúðarmarsinn og einnig að ganga inn kirkjugólfið með pabba. Ég ætlaði mér aldeilis að sjá svipinn á Halli þegar hurðin opnaðist, en þar sem dóttir mín, sem átti að vera brúðarmær, var ekki tilbúin í þetta og bara grét og vildi koma til mín, stressaðist ég svolítið upp og náði því ekki alveg.

Alla athöfnina horfði ég aðallega á Hall, trúði varla að þetta væri að gerast – hann var að verða maðurinn minn og það var ansi góð tilfinning," segir Tinna.

Tinna segist ekki hafa hugsað mikið um allar myndavélarnar sem þó fylgdu henni allan daginn. „Ég hafði um svo margt annað að hugsa í kirkjunni. Það var aðeins erfiðara meðan ég var að taka mig til en ég var bara ég sjálf. Þeir mynduðu meira að segja þegar ég var að gefa Emmu brjóst, í brúðarkjólnum.

Ég er ekki mikið fyrir athygli en mér þótti þetta spennandi og skemmtilegt. Það verður gaman að sjá þetta og okkur á eftir að þykja ómetanlegt að fá að eiga upptökurnar og góðar myndir frá þeim.


Hrifnir af öllu saman

Í viðtalinu að brúðkaupi loknu voru auk Tinnu Rutar og Halls, börnin þeirra auk barna Halls sem og önnur barnsmóðir hans. Þau segja að það hafi komið þáttastjórnendum í opna skjöldu hversu samskiptin eru góð.

„Þeir voru mjög hrifnir af öllu saman, þótti umhverfið dásamlegt og umgjörðin á brúðkaupinu einnig. Það var mikil gleði í athöfninni, ég og dóttir mín sungum til Tinnu, pabbi hennar söng útgöngulagið og strákarnir sem ég þjálfa í Fjölni stóðu heiðursvörð. Þetta var allt einstaklega vel heppnað. Þeim þótti einnig mjög athyglisvert að önnur barnsmóðir mín sé góð vinkona okkar og spurðu mikið út í það sem og fjölskyldutengslin almennt," segir Hallur.


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.