Fimmtán ára meistari: Meistaramót Golfklúbbs Fjarðabyggðar
Golfklúbbur Fjarðabyggðar hélt sitt níunda meistaramót síðastliðinn sunnudag.Spilaðar eru 18 holur í höggleik án forgjafar á meistaramóti GKF. Klúbbmeistarar urðu Jóhanna Hallgrímsdóttir og Viktor Páll Magnússon. Þau voru einnig klúbbmeistarar fyrir tveimur árum síðan og þurftu nú að endurheimta titilinn af Önnu Jenný Vilhelmsdóttur og Friðriki Bjarti Magnússyni.
Er þetta áttundi meistaratitill Jóhönnu og annar meistaratitill Viktors Páls sem er aðeins á sextánda ári.
Barna og unglingastarf GF er nokkuð öflugt og voru fjórir unglingar á aldrinum 14 til 16 ára með í meistaramótinu.
Í sumar hefur börnum á aldrinum 8 til 16 ára gefist kostur á því að stunda æfingar sér að kostnaðarlausu tvisvar í viku. Mun því sumarstarfi ljúka með golfmóti á fimmtudaginn kemur.
Æfir fjóra tíma á dag
Viktor Páll var hógværiðin uppmáluð þegar Austurfrétt hafði samband við hann og spurði hvort það væri ekki gaman að vinna eldri spilara.
„Ég er búinn að æfa golf í rúm sjö ár og reyni að ná svona fjórum tímum á dag með vinnu eða skóla, lengur ef ég er í fríi. Áhuginn kviknaði aðalega af því þetta gekk svo vel strax frá byrjun, þetta snýst um að fá lágt skor og ég var alltaf góður í því.
Það er ágætt að geta unnið eldri spilara, en golfið snýst meira um getuna heldur en aldurinn og því yngri sem maður byrjar því betri tökum nær maður á þessu," segir Viktor Páll.
Viktor Páll hefur verið að kenna golf í sumar. „Það er bara alveg ágætt að kenna krökkunum og það eru margir áhugasamir og efnilegir í þessum hópi."