„Nærandi fyrir sál og líkama að komast í óbyggðirnar"

halendisgaesla web10Björgunarsveitin Ársól á Reyðarfirði stóð hálendisvakt Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Dreka við Öskju fyrstu vikuna í ágúst.

Þetta er í tíunda sinn sem sjálfboðaliðar Slysavarnafélagsins Landsbjargar standa vaktina á hálendinu en markmið verkefnisins er að fækka slysum og bæta umgengni á hálendinu.

Fjölmargir standa að verkefninu – Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Ferðamálastofa, Íslandsstofa, Ísland allt árið. Vegagerð ríkisins, Samtök ferðaþjónustunnar, Sjóvá, Neyðarlínan, Vatnajökulsþjóðgarður, Ferðafélag Íslands og fleiri.

Fyrstu hóparnir halda af stað í lok júní þar sem þeir eru til taks og bregðast við vegna leitar- og björgunaraðgerða, ásamt því að leiðbeina ferðamönnum. Tugþúsundir ferðamanna hafa nýtt sér hálendisvaktina undanfarin ár.


Afar fjölbreytt verkefni

Gísli Þór Briem var einn þeirra sem stóð vaktina með Ársól, en tveir þriggja manna hópar voru frá félaginu. Gísli starfar í slökkviliði Fjarðabyggðar og hefur langa reynslu af björgunarsveitum, en hann hóf feril sinn hjá Flugbjörgunarsveitinni á Akureyri árið 1990 og hefur starfað með Ársól í tæp 20 ár.

„Ársól hefur tekið þátt í hálendisgæslunni í nokkur ár – að Fjallabaki, Sprengisandi og nú síðari ár í Dreka við Öskju. Í ár voru gerðar kröfur um tvo hópa norðan Vatnajökuls (Dreka) vegna straums ferðamanna sem kemur til þess að skoða Holuhraun," segir Gísli.

Hann segir verkefnin sem tengjast hálendisvaktinni mjög fjölbreytt og skemmtileg.

„Við fræðum ferðamenn, bæði fótgangandi og á ökutækjum, um öryggismál. Fylgjumst með að ekki sé verið að keyra utanslóða, drögum bíla úr ám og vötnum, gerum við brotnar rúður, lögum og skiptum um dekk, skoðum færð á slóðum, hlúum að slösuðum, leitum að týndum og svo mætti lengi telja. Við vinnum í nánu nánu samstafi með landvörðum, skálavörðum, neyðarlínu og lögreglu."


3950 km eknir

Gísli segir starfið með björgunarsveitinni mjög gefandi. „Þetta hentar mér afar vel þar sem eitt af mínum aðal áhugamálum er útivist. Þarna fær maður víðtæka reynslu af ýmsum þáttum eins og fjallamensku, fyrstu hjálp, ferðamennsku, meðferð slöngubáta, leitartækni, fjarskiptum og fleiru.

Okkur sem erum í þessu þykir frábært að fá tækifæri til þess að komast frá daglegu amstri og út í náttúruna, en þrátt fyrir að ferðamönnum fari sífellt fjölgandi er alltaf svo nærandi fyrir sál og líkama að komast í óbyggðirnar.

Hóparnir eru á ferðinni allan daginn og eknir voru alls 3950 km í ár. Það eru því allir þreyttir þegar komið er í bækistöðina að kvöldi. Undir Holuhrauni streymir rúmlega 40° heitt vatn í nokkuð miklu magni og því var legið þar fram að miðnætti öll kvöld."
halendisgaesla web1halendisgaesla web2halendisgaesla web3halendisgaesla web4halendisgaesla web5halendisgaesla web6halendisgaesla web10



Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.