„Við söknum strákanna"

dansstudio emiliu webNemendur frá Dansstúdíó Emelíu ljúka tveggja vikna námskeiði með sýningum á Reyðarfirði í dag og Fljótsdalshéraði á morgun.
Dansstúdíó Emelíu er verkefni á vegum Emelíu Antonsdóttur Crivello, en hún hefur haldið dansnámskeið reglulega á Egilsstöðum frá árinu 2007. Síðustu tvö sumur hafa einnig verið námskeið á Reyðafirði.

Kennari á námskeiðinu á Reyðarfirði er Bryndís Björt Hilmarsdóttir og Austurglugginn hitti hana á einni æfingunni, en á henni voru aðeins stelpur.

„Það eina sem er leiðinlegt er þetta, við söknum strákanna. Það voru einhverjir sem skráðu sig og kíktu jafnvel við en ákváðu að vera ekki með. Þetta er ekki svona í Reykjavík til dæmis, þar er flutt af strákum að æfa – ég veit ekki alveg hvað er hægt að gera í þessu.

Stelpurnar eru mjög jákvæðar og duglegar. Dansinn er frábær hreyfing og mjög þroskandi fyrir krakka og þeim líður mjög vel eftir æfingar.

Námskeiðið byggist á því að ég kenni þeim tvær dansrútínur ásamt allskonar upphitunar- og tækniæfingum sem er góður grunnur, en aðaláherslan er á dönsunum sem þeim þykir líka langskemmtilegast."

Danssýningin á Reyðarfirði verður í Grunnskólanum og hefst hún klukkan 17:45. Á Héraði verður hún á morgun klukkan 13:00 í íþróttahúsinu í Fellabæ. 

Nemendur á Reyðarfirði. Ljósm: Kristborg Bóel 

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.