„Jói gengur frá endum fyrir okkur bæði": Prjónahjón á Stöðvarfirði
Mikið prjónaæði hefur gengið yfir landið á síðustu árum og á Stöðvarfirði þefaði Austurglugginn upp hjón sem sitja saman og prjóna flestum stundum.Þau Jóhann Jóhannsson og Guðný Elísabet Kristjánsdóttir eru iðin við prjónana og bróðurpartur framleiðslunnar fer á Salthúsmarkaðinn á Stöðvarfirði þar sem heimafólk selur handverk sitt.
„Við Jói áttum stóran þátt í því að koma markaðnum á fót, ásamt fleirum. Mig hafði lengi dreymt um að staðurinn hefði upp á eitthvað slíkt að bjóða," segir Guðný en Salthúsmarkaðurinn varð að veruleika sumarið 2009 og hefur síðan þá vaxið og dafnað og fluttist nú í vor í betra húsnæði í gamla samkomuhúsi staðarins.
„Það vinnur hver að sínu allan veturinn en það kostar heilmikla vinnu að geta boðið upp á skemmtilegt úrval af vönduðu handverki," segir Guðný.
20 para túr
Það vekur óneitanlega athygli að rekast á karlmann sem er jafnflinkur að prjóna og Jóhann. Hann lærði það ungur og það var Guðný sem hvatti hann til þess að dusta rykið af kunnáttunni þegar hann lenti út af vinnumarkaði á sínum tíma sökum veikinda.
„Það er alveg sama hvert við erum að fara, hvort sem það er í frí innanlands eða erlendis, prjónarnir eru alltaf meðferðis. Ég verð helvíti svekktur ef ég næ ekki svona 20 pörum í túr," segir Jói glettinn.
„Það var ömmusystir mín sem kenndi mér að prjóna þegar ég var lítill polli. Þá prjónaði ég bara garðaprjónssokka. Í dag prjóna ég svokallaða rósavettlinga og hef ekki undan, þó svo ég nái að klára eitt par á dag. Hugmyndin er komin frá móður minni, ég er með gömul mynstur frá henni sem ég hef svo breytt eftir því sem við á," segir Jóhann.
Samvinnuverkefni
Guðný og Jóhann segjast aldrei þreytast á iðju sinni. „Þetta er svo ágætt. Við sitjum aldrei við sjónvarp nema með prjóna. Við kannski fáum okkur kríu af og til en það er líka í lagi. Við höfum heldur ekki mátt vera að því að lesa, því við prjónum þar til við lokum augunum á kvöldin. Nýlega eignuðumst við spilara til þess að hlusta á hljóðbækur og það er alveg frábært með prjónaskapnum.
Jói gengur frá endum fyrir okkur bæði, enda er hann miklu fljótari að því en ég. Hann prjónar líka þumlana á mína vettlinga þannig að þetta er algert samvinnuverkefni hjá okkur," segir Guðný og hlær.
Fálkaorða fyrir breytingu hringvegar
Guðný prjónar peysur, húfur, sokka, jólakúlur úr einbandi og fleira fyrir markaðinn og auk vettlinganna hefur Jóhann verið að reyna fyrir sér að vinna vörur úr hreindýrshornum. Þau láta vel af sölunni en segja það mestmegnis erlenda ferðamenn sem koma á markaðinn.
„Ég myndi tilnefna þann til Fálkaorðunnar sem breytti hringvegi eitt um firði frá Breiðdalsheiði og Öxi. Það er stórmál fyrir okkur að missa alla þessa ferðamenn framhjá okkur," segir Jói ákveðinn.