„Eldar mat á Óbyggðasetri með ömmu á línunni"
Elísabet Rós Valsdóttir stökk heldur betur út í djúpu laugina í sumar þegar hún réð sig sem „húsfreyju" á Óbyggðasetrinu í Fljótsdal.Elísabet Rós, sem er 24 ára reykvískur heimspekinemi, segir sumardvölina sem lýkur um helgina hafa verið virkilega lærdómsríka og ánægjulega í senn. En hvernig kom til að hún endaði út í óbyggðum í stað þess að finna sér þægilega innivinnu á heimaslóðum?
„Starfið var auglýst á Facebook og vinkona mín að austan benti mér á það, en hún var að fara að vinna í Snæfellsstofu og hvatti mig til þess að koma með. Mér datt í hug að það gæti bara verið gaman að komast í sveitasæluna úr „borg óttans" og gera eitthvað allt annað en ég hef áður gert. Hélt líka að ég væri að ráða mig í sumar og sól, en annað kom á daginn. Rigningin hefur samt ekki angrað mig og mér hefur liðið mjög vel."
Kunni lítið fyrir sér í eldhúsinu
Elísabet Rós segir sig lítið hafa vitað um sitt hlutverk áður en hún mætti á staðinn og kunnáttu sína af eldamennsku hafa verið af skornum skammti.
„Í raun hafði ég ekki hugmynd í hvað ég var að demba mér og það hefur eiginlega komið á óvart hve vel hefur gengið.
Til að byrja með voru verkefnin mín að elda hádegismat fyrir smiðina sem voru að undirbúa Óbyggðasetrið og baka köku í kaffinu ef ég var í stuði, svona á milli þess sem ég hljóp í ýmis verk svo sem að saga, negla, mála og ýmislegt fleira.
Þegar við svo opnuðum í júlí tók ég við starfi húsfreyju sem felur í sér að sjá um alla matseld fyrir gesti og starfsfólk – morgunmat, hádegismat, kvöldmat og kaffihlaðborð með allskonar kræsingum, sem og gestamóttöku að einhverju leyti.
Ég hef verið dugleg að hringja í ömmu og hún á heiðurinn af öllu besta bakkelsinu sem hefur verið á boðstólum Óbyggðasafnsins í sumar. Döðlukakan hennar hefur verið vinsælust, sem er best með karamellusósu og rjóma. Krakkarnir hins vegar elska súkkulaðibitakökurnar hennar sem ég hef alltaf til.
Starfsfólkið gerir stundum grín að mér. Í byrjun sumars bar ég allan mat á borð með afsökunarbeiðni – sorrý, þetta er örugglega vont, sorrý – en nú segja þau að ég sé ekkert nema hrokinn og finnst allt sem ég ber á borð gott, svona næstum því. Ég fer allavega heim með meira sjálfstraust í eldamennsku en ég kom með," segir Elísabet Rós.
Gott að komast burt frá daglegu amstri
Elísabet Rós segist vön því að koma út á land en hefur þó aldrei verið eins lengi samfleytt utan höfuðborgarsvæðisins og nú, hvað þá svo afskekkt.
„Þetta hefur verið alveg frábært. Það er svo skemmtilegt að sjá Óbyggðasetrið vaxa og dafna. Fyrst þegar ég kom var allt á hvolfi og framkvæmdir á fullu.
Ég var hreinlega ekki viss um hvert ég væri komin eða hvort ég væri tilbúin til að vinna í ryki og skít sumarlangt. Sú staða breyttist og nú get ég sagt með sanni að ég hafi aldrei unnið á jafn fallegum stað. Það er mjög gott að komast út úr amstri daglegs lífs og það lengst út í sveit þar sem er ekkert símasamband og mjög fallegt umhverfi.
Gestir eru almennt mjög hrifnir, líkar stemmningin og margir segja að þeim líði eins og þeir séu komnir heim til ömmu sinnar og hverjum líkar það ekki?"
Finnst hún hafa verið svikin um sveitalífið
Elísabet Rós er að hefja sitt þriðja ár í heimspeki í haust og aðpurð hvort námið hafi hjálpað henni í sumar segir hún:
„Heimspekin kemur að góðum notum, allstaðar. Hún hjálpar manni að hugsa gagngrýnið og mér finnst hún hafa kennt mér ákveðna þolinmæði og að taka bara hlutunum eins og þeir eru.
Ég á svo sannarlega eftir að sakna þess að vera hér og líður næstum eins og ég hafi veirð svikin um sveitalífið hingað til, en það er æðislegt. Ég vona svo sannarlega að ég hafi tækifæri til þess að koma næsta sumar."