Gera við réttir til að safna fé

bruaraskrakkar rettÞað er ekki óþekkt að grunnskólanemendur standi í margskonar fjáröflunum til að safna sér peningum fyrir skólaferðalagi. En það eru sennilega ekki margir hópar sem ráða sig í smíðavinnu í þessum tilgangi.

Það gera þó nemendur í Brúarásskóla á Fljótsdalshéraði, en þaðan hafa nemendur  lagt sitt af mörkum undanfarin tvö ár í viðhaldi fjárrétta.

Viðhald réttanna er á kostnað Fljótsdalshéraðs, en það eru feðgarnir Benedikt Arnórsson og Agnar Benediktsson sem hafa unnið að verkinu, með tilsstyrk skólakrakkanna. Benedikt er verkstjóri og Agnar er vélamaður.

Agnar segir það býsna skemmtilegt að vinna með krökkunum. „Þau standa sig alltaf ljómandi vel. Þetta eru duglegir krakkar og ég held þeim þyki þetta skemmtilegt. Þetta voru að minnsta kosti mikið sömu krakkarnir sem komu aftur í þetta.“

Að þessu sinni var gert við rétt við Rangalón í Jökuldalsheiði. Agnar segir að ekki hafi náðst að klára verkið að þessu sinni því til þess hafi vantað fjármagn. En hann reiknar með því að það verði gert á næsta ári.

Stefanía Malen Stefánsdóttir, skólastjóri í Brúarásskóla, segir verkefnið bæði skemmtilegt og gagnlegt. „Þetta kom fyrst til í fyrra en þá hafði Bensi samband til að kanna hvort það væri áhugi á þessu. Þetta eru nemendur í 9. og 10. bekk sem fara og þau velja það sjálf, en þó ekki fleiri en 8. Þetta er skemmtilegt og styrkir lykilhæfni krakkanna.“

Mynd frá Brúarásskóla: Vinnuflokkurinn að verki loknu. F.v. Arnór Benediktsson, Aron Víðir Snædal, Hólmar Logi Ragnarsson, Dvalinn Lárusson, Logi Benediktsson, Styrmir Freyr Benediktsson, ónefndur hundur, Sigurjón Trausti Guðgeirsson, Guðný Halla Sóllilja Björnsdóttir og Agnar Benediktsson.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.