„Allar konur eru afrekskonur"

sylvia dogg halldorsdottirReyðfirðingurinn Sylvía Dögg Halldórsdóttir (Sylvía Lovetank) tók að sér skemmtilegt hlutverk í sýningunni Afrekskonur sem fram fer í Ráðhúsi Reykjavíkur um þessar mundir.

Sýningin Afrekskonur er samspil margra ólíkra sýninga sem hafa verið settar upp og eru yfirstandandi í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna, en uppsetning hennar var samþykkt á hátíðarfundi kvenna í borgarstjórn í mars.

Markmið sýningarinnar er að sýna gestum hvað konur á Íslandi hafa áorkað í gegnum tíðina og að byltingar kvenna leynast ekki síður í hversdagsleikanum.

Listrænn stjórnandi sýningarinnar Sylvía Dögg er listrænn stjórnandi sýningarinnar sem fól í sér útfærslu hugmynda og verkefna annarra sem á sýningunni eru auk uppsetningu innanhúss sem utan. Einnig á hún eitt málverk á sýningunni.

„Árið 1895 tóku konur sig til og söfnuðu undirskriftum um land allt og skoruðu á alþingi að breyta lögum landsins og veita konum sömu réttindi og karlmönnum – kosningarétt og rétt til kjörgengis. Við prentuðum út fyrsta undirskriftalista hvers kjördæmis fyrir sig og lögðum sem dregil inn í húsið.

Við létum einnig útbúa falleg ljós sem prýða hvern inngang Ráðhússins, en þau voru unnin af mikilli fagmennsku af Reyðfirðingnum og frænda mínum Bóasi Bóassyni og fyrirtæki hans Logoflex, svo dæmi séu tekin um mína aðkomu."

Sylvía Dögg segir það hafa verið einstaklega skemmtilegt að taka þátt í verkefninu.

„Sýningarstjórinn Rakel Sævarsdóttir fékk mig í lið með sér og var einstaklega gaman að fá að vinna með konum á öllum aldri að fjalla um konur. Það hefur einnig verið áhugavert að fá að vinna með Reykjavíkurborg og stofnunum tengdum henni. Viðtökurnar á opnuninni voru virkilega góðar og sýningin hefur verið vel sótt og er skemmtileg í heild sinni.

Það sem mér þykir þó þýðingarmest við verkefnið er sú hugmynd að gera „hvunndagshetjunni" hátt undir höfði og gefa henni verðskuldaða athygli í mismunandi birtingaformum – en allar konur eru afrekskonur og sú hugmyndafræði að draga þær fram í dagsljósið og gera þeim hátt undir höfði er svo falleg."


Hver er þín hvunndagshetja?

Sýningin verður opin út september og meðan á henni stendur verður haldið áfram að safna afrekssögum af konum í gegnum netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. og á www.afrekskonur.is. Sýningin verður opin í september og verða viðburðir allan mánuðinn tengdir afrekskonum.

„Fólk er beðið um að leiða hugann að sinni afrekskonu og fá tækifæri til að koma henni á framfæri, en það þykir mér frábær hugmynd. Flest eigum við ömmur, mæður, systur og vinkonur sem á hverjum degi eru eða voru til staðar og láta eða létu gott af sér leiða en fæstir kannski heyra af.

Ég tel afar mikilvægt að kenna ungum konum og minna þær á að það voru formæður þeirra sem greiddu götu okkar og gáfu okkur það frelsi sem við búum að í dag. Það þurfti kjark, vinnu og þor og þeim tókst það – þær eru hetjur og því má ekki gleyma. Ég vil því hvetja alla til þess að fara inn á síðuna Afrekskonur á Facebook eða á afrekskonur.is og segja frá sínum hversdagshetjum og auðvitað að kíkja á þessa sýningu."


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.