Útbýr græðandi krem úr íslenskum jurtum

ingibjorg eythorsdottir webIngibjörg Eyþórsdóttir á Stöðvarfirði hefur undanfarin sextán ár þróað jurtaáburð með góðum árangri.

„Ég bara man ekki eftir mér öðruvísi en að hafa haft gaman af því að vera úti í móa að tína ber og blóm. Ég uppgötvaði svo einn daginn að ég gæti búið til te úr blómunum og það fannst mér alveg frábært. Faðir minn hafði líka alltaf mikla trú á grasalækningum og slíku."

Inga segir að það hafi ekki verið fyrr en hún flutti sem ung kona á Stöðvarfjörð að hún fór að kynna sér málin fyrir alvöru.

„Tengdamóðir mín var afar mikil grasakona og kenndi mér ýmislegt – að þekkja jurtirnar í móanum og hvaða jurtir hefðu verið notaðar áður fyrr við hinu og þessu.

Upphafið að kremunum má segja að sé vegna þess að elsti dóttursonur minn fékk gjarnan slæmt exem. Ég hugsaði með mér að það væri best að prófa að nota eitthvað af þessum góðu jurtum sem ég þekkti. Ég fór því að prófa mig áfram og það var bara eins og við manninn mælt, kremin höfðu veruleg áhrif á drenginn.

Eftir það fór ég að prófa mig áfram með fleiri krem og framleiði aðallega þrjú í dag – exemáburðinn, bólgu- og verkjaeyðandi áburð og sárakrem, sem er sérstaklega græðandi."


Stóra skrefið var að byrja að sjóða

Inga segist mikið lesa sér til, í grasabókum og annars staðar. „Stóra skrefið var hins vegar að þora að setja þetta saman í pott og sjóða, það var ekki nóg að vera vel lesinn. Ég þurfti að finna réttu hlutföllin, bæði hve mikil jurtafeiti ætti að vera á móti jurtunum sem og hve mikið af þessari jurt ætti að vera á móti hinni."

Inga selur vörurnar sínar á Salthúsmarkaðnum á Stöðvarfirði sem og heima hjá sér.

„Það er ánægjulegt að sjá hve kremin virka vel, en það gera þau svo sannarlega. Ég fékk meira að segja hringingu frá Bretlandi um daginn þar sem kona sem hafði keypt sér áburð á Salthúsmarkaðnum var að lýsa ánægju sinni með hann. Það þótti mér bæði merkilegt og skemmtilegt."


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.