„Það er mitt hlutverk að moka bílastæðið"

jonas thorirJónas Þórir Þrastarson, nemandi sjöunda bekkjar Grunnskóla Reyðarfjarðar, hlaut í vor verðlaun fyrir framlag sitt til Nýsköpunarkeppni grunnskólanna.

Nýsköpunarkeppni grunnskólanna (NKG) er árviss viðburður fyrir nemendur í 5. 6. og 7. bekk en Paul Jóhannsson er upphafsmaður hennar.

Undirbúningur í skólum landsins fer fram samhliða skólaárinu. Keppnin hefst á haustin og lýkur á vorin með vinnusmiðju þar sem þátttakendur í úrslitum fá tækifæri til að útfæra hugmyndir sínar frekar með aðstoð leiðbeinenda frá Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík.

Jónas Þórir vann og þróaði fjarstýrðan snjómokstursbíl og hlaut að launum Tæknibikar Pauls fyrir hugmynd sína og framgöngu í
vinnusmiðju.

„Ég var aðeins búinn að hugsa þetta áður en ég byrjaði í nýsköpuninni. Ég sá svo á netinu að einhver var búinn að setja skóflu á lítinn rafmagnsbíl og ákvað að taka og þróa hugmyndina lengra," segir Jónas Þórir.

„Þetta auðveldar manni að moka snjó en það er mitt verk að moka bílastæðið og þess vegna vildi ég gera eitthvað í þessu. Maggi húsvörður (í skólanum) kom svo með þá hugmynd að setja sóp á hann líka til þess að nýta bílinn á vorin líka. 

Ég sé þetta fyrir mér sem lítinn, fjarstýrðan rafmagnsbíl með snjótönn. Fyrst ætlaði ég að hafa hann þannig að það þyrfti að taka tönnina af til þess að setja sópinn á, en eftir að ég kom í aðalkeppnina þá þróaðist hugmyndin lengra, þannig að nú er hún þannig að tönnin lyftist upp og festist þar meðan þú ert að sópa og sópurinn upp þegar þú ert að moka."

Jónas segir ferlið hafa verið mjög lærdómsríkt. „Það var frábært að fá að taka þátt í þessu. Það var mikið að gera, við vorum í þrjá daga frá átta til fjögur í vinnusmiðjum og á fyrirlestrum. Ég var fyrst óöruggur með mig en það lagaðist fljótt. Það kom mér á óvart að vinna bikarinn, mér var þó búið að detta það í hug."


Ætlar aftur að taka þátt í ár

Jónas Þórir segist vera spenntur fyrir því að sjá hugmyndina sína verða að veruleika. Hann sé þó ekki komin með neina áætlun hvernig hann ætli að standa að því, tíminn einn verði að leiða það í ljós.

Hann er uppfullur allskyns hugmynda og segir það ekki spurningu í sínum huga að taka einnig þátt í vetur. „Ég hef verið að hugsa en ætla ekki greina frá hugmyndunum strax," segir Jónas Þórir að lokum og brosir hæversklega.


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.