Með alvarlega söfnunaráráttu
![Anton web](/images/stories/news/2015/Anton_web.jpg)
„Þetta byrjaði með því að ég flutti þá hluti sem ég hef safnað gegnum tíðina úr kjallaranum heima hjá mér og niður í vinnu," segir Anton.
„Eftir að það spurðist út fóru hlutirnir að ryðjast inn, fólk bæði kemur og biður mig um að geyma muni fyrir sig eða gefur til safnsins."
Anton segist sjálfur vera með alvarlega söfnunaráráttu. „Það er alveg sama hvað er, ég hirði bókstaflega allt og hendi engu. Þegar enginn staður er til þess að taka við gömlum munum þá er þeim bara hent en það þykir mér sorglegt – þeir eru hluti af sögu okkar og byggðarlagsins."
Á safninu kennir ýmissa grasa. „Þetta er allt mögulegt. Ég er búinn að skrá niður og merkja um 200 hluti en á að minnsta kosti hundrað eftir ennþá. Sjálfur á ég engan uppáhaldshlut, ég get hreinlega ekki gert upp á milli þeirra."
Enginn hefðbundinn opnunartími er á safninu heldur er fólki velkomið að líta við þegar Anton er á staðnum.
„Það er alltaf tekið vel á móti gestum og fólki þykir virkilega gaman að koma og skoða en það er býsna margt orðið að sjá hérna. Það er sérstaklega ánægjulegt þegar fólk þekkir hlutinn, ef að jafnvel afi eða amma hafa átt hann. Ég er bara ánægður með að þessu hafi ekki verið hent og vonast til þess að þetta fái að vera hér í framtíðinni."