Skip to main content

Kammerhópurinn Stelkur á Eskifirði

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 16. okt 2015 14:46Uppfært 16. okt 2015 14:56

 MG 2247Það kenndi ýmissa grasa á sembaltónleikum sem Kammerhópurinn Stelkur hélt í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði á þriðjudag.



Tónleikarnir voru í aðra röndina lokahnykkurinn í því að halda upp á afmæli tónskáldsins og tónlistarkennarans góðkunna Charles Ross, en hann varð fimmtugur á árinu.

Charles hefur verið búsettur á Íslandi, lengst á Eiðum á Fljótsdalshéraði, og kennt tónlist allt frá árinu 1986. Hann var hvatamaður að stofnun kammerhópsins, en hann skipa einkum tónlistarkennarar á Austurlandi og er markmiðið að æfa og flytja verk sem tónlistarfólkið hefur metnað til og sem passa hljóðfærasamsetningunni.

Á tónleikunum í gær voru flutt verk þar sem semballinn kemur við sögu. Semball er strengja- og hljómborðshljóðfæri og forveri píanós. Semball hefur hljómborð, en hver lykill tengist „þorni“ sem griplar strengi á láréttri hörpu í stað þess að slá á þá eins og í píanói.

Aðeins er til einn semball á Austurlandi, sem keyptur var eftir söfnun og að frumkvæði áhugafólks, en hann er í eigu Tónlistarskólans á Egilsstöðum og var fluttur sérstaklega á Eskifjörð í tilefni af tónleikunum. Þórunn Gréta Sigurðardóttir kynnti tónleikana og tók fram að það hefði verið tímabært að semballinn fengi að heimsækja Eskifjörð.

Efnisskráin var fjölbreytt og má segja að ýmist hafi verið um að ræða býsna gömul tónverk eða samtímaverk. Undir fyrri flokkinn féllu Kvintett í D-dúr eftir Johann Christian Bach og Aria sopra la Bergamasca eftir Marco Uccelini sem bæði voru samin á 18. öld.

Samtímaverkin voru síðan fjögur talsins. Petits Plaisirs eftir Þorkel Sigurbjörnsson, Sumir dagar eftir Karólínu Eiríksdóttir, sem samið var við ljóð eftir Þorstein frá Hamri, Among the Animals eftir Charles Ross sjálfan og svo að síðustu verkið Sembull eftir tónskáldið Pál Ívan frá Eiðum. Það verk flutti tónskáldið sjálft einn síns liðs á sembal með aðstoð Apple fartölvu og gítars.

Skemmst er frá því að segja að góður rómur var gerður að verkunum og flutningi þeirra, og ljóst að á meðal Austfirðinga er sannarlega að finna klassískt tónlistarfólk og tónskáld í fremstu röð.

Eftirtaldir komu fram á tónleikunum:
Berglind Halldórsdóttir - Klarinett
Charles Ross - Fiðla og gítar
Eyrún Eggertsdóttir - Fiðla
Gillian Haworth - Óbó og enskt horn
Halldór Warén - Rafhljóð
Hildur Þórðardóttir - Flautur og melódika

Páll Ívan Pálsson - Semball, slagverk og rafhljóð
Sigríður Kristjana Ingimarsdóttir - Selló
Steinrún Ótta Stefánsdóttir - Söngur
Suncana Slamnig - Semball
Védís Klara Þórðardóttir - Söngur
Þórunn Gréta Sigurðardóttir - Harmóníum